Murray tapaði fyrir Spánverjanum Roberto Bautista Agut eftir hetjulega baráttu í viðureign sem réðst ekki fyrr en í oddasetti. Murray hafði tapað fyrstu tveimur settunum en vann næstu tvö
Ástæðan fyrir því að Murray er að íhuga að hætta 31 árs gamall eru þrálát meiðsli í mjöðm. Murray hefur verið mjög þjáður vegna meiðslanna í langan tíma og sagði á blaðamannafundinum á föstudag að aðgerð væri hans eini möguleiki að halda ferlinum gangandi.
„Það eru samt sterkar líkur á því að mér takist ekki að spila á nýjan leik eftir aðgerð. Ég vil spila tennis en ekki með þá mjöðm sem ég er núna með,“ sagði Murray á föstudag.
Murray vildi að Wimbledon-mótið í sumar yrði hans kveðjustund en það er óvíst að hann nái því. Hann mun taka ákvörðun um hvort hann gangist undir áðurnefnda aðgerð á næstu tveimur vikum, að eigin sögn.
„Þrátt fyrir að aðgerð myndi mögulega þýða að ég myndi ekki spila tennis framar þá myndu lífsgæði mín aukast. Eins og staðan er núna eru einfaldir hlutir eins og að fara út að labba með hundinn minn eða spila fótbolta með vinum mínum eitt það versta sem ég get hugsað mér að gera,“ sagði Murray.
Murray var greinilega þjáður í viðureign sinni gegn Bautista Agut í gær en harkaði af sér, viðstöddum til mikillar ánægju. Eftir að viðureigninni lauk var kveðjumyndband spilað þar sem stærstar tennisstjörnur heims sendu Murray kveðju. Það hreyfði greinilega við Skotanum, eins og sjá má hér fyrir neðan.