Ekki er óalgengt að selir láti sjá sig við bæinn Roddickton-Bide Arm á Nýfundnalandi í Kanada. Hópur þeirra varð hins vegar innlyksa þegar sjóinn við bæinn lagði skyndilega í síðustu viku, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Sérfræðingar telja að sjóinn hafi lagt svo hratt að selirnir hafi ruglast í ríminu og leitað lengra inn í land.
Bannað er samkvæmt kanadískum lögum að hrófla við sjávardýrum eins og selum. Bæjarráðið hefur óskað eftir aðstoð ríkisstjórnarinnar við að koma selunum til bjargar.
„Það eru selir á vegunum, það eru selir í heimkeyrslum fólks, görðum þess, bílastæðum, dyrum, fyrirtækjum,“ segir Sheila Fitzgerald, bæjarstjórinn í Roddickton.