Erlent

Kvarta yfir þyrlueinokun á Indlandi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Narendra Modi þykir einoka þyrlur í kosningabaráttunni.
Narendra Modi þykir einoka þyrlur í kosningabaráttunni. Nordicphotos/AFP
Flokksmenn Congress, stærsta stjórnarandstöðuflokks Indlands, sögðust í gær eiga í vandræðum með að finna þyrlur til að ferja leiðtoga flokksins á milli staða í aðdraganda þingkosninga sem fara fram í vor. Narendra Modi forsætisráðherra og BJP-flokkur hans eru sagðir sökudólgarnir og kennt um að einoka þyrlur landsins.

Indland er stórt og fjölmennt með 1,3 milljarða íbúa. Frambjóðendur þurfa því að ferðast mikið.

Anand Sharma, fyrrverandi iðnaðarráðherra og háttsettur innan Congress, sagði BJP hafa bókað stóran hluta indverska þyrluflotans níutíu daga fram í tímann. Venjan sé að slíkar bókanir séu með 45 daga fyrirvara. „BJP hefur tryggt sér flestar þyrlurnar enda á flokkurinn digra sjóði. Ef við hugsum okkur að auði flokkanna tveggja sé skipt í hundrað hluta ættu þau níutíu, við tíu,“ sagði Sharma.

BJP-liðar þvertaka fyrir að ­flokkurinn einoki þyrluflotann.

Kosið er um 543 sæti í neðri deild þingsins í hollum í apríl og maí. Alls eru 545 sæti í boði en forseti skipar þau tvö sem eftir standa út frá tilnefningum ensk-indverska samfélagsins þar í landi.

Skoðanakönnun frá því fyrr í janúar sýnir að stefni í að bandalag BJP fái 245 þingsæti, bandalag Congress 146 og aðrir flokkar 152. Verði þetta raunin hefur hvorugt bandalagið meirihluta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×