Erlent

Dular­fullur fjölda­dauði lang­vía í Norður­sjó

Atli Ísleifsson skrifar
Landvía er strandfugl af svartfuglaætt.
Landvía er strandfugl af svartfuglaætt. Getty
Hollendingar eru margir undrandi eftir að um 20 þúsund dauðum eða deyjandi langvíum hefur skolað upp á stendur landsins síðustu daga. Fuglarnir sýna merki um að hafa verið vannærðir en óljóst er hvað hefur valdið fjöldadauðanum.

„Við vitum enn ekki svarið. Þetta er uggvænleg staða,“ segir Mardik Leopold, sjávarlíffræðingur við Háskólann í Wageningen.

Hræjunum hefur skolað á land á eyjum undan strönd meginlands Hollands. Sama staða er hins vegar ekki uppi á teningnum á ströndum Belgíu í suðri eða Þýskalandi norðar. Sú staðreynd hefur fengið vísindamenn til að halda að dauðinn skýrist ekki af fæðu, sem háð er veðri, þar sem nokkurn veginn sama veður hefur verið á svæðinu öllu.

Fjölmiðlar í Hollandi hafa bent á að mögulegt sé að fuglarnir hafi komist í tæri við eitthvað skaðlegt sem hafi mögulega verið í einhverjum gámi sem féll af flutningaskipi og í Norðursjó fyrir um mánuði.

Leopold segir þó engar vísbendingar vera um slíkt og bætir við að þeir hefi heldur ekki verið þaktir olíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×