Erlent

Keypti vinningsmiðann með stolnu korti og fær ekki milljónirnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vinningurinn fékkst út á skafmiða. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Vinningurinn fékkst út á skafmiða. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty/Andia
Kanadísk kona á fertugsaldri taldi sig hafa dottið í lukkupottinn þegar hún vann 50 þúsund Kanadadali á skafmiða. Draumurinn um milljónirnar var þó fljótt úti þar sem konan hafði keypt vinningsmiðann með stolnu kreditkorti.

Samkvæmt frétt kanadísku fréttastofunnar CBC var konan handtekin þegar hún vitjaði vinningsins, sem nemur rétt um fjórum og hálfri milljón íslenskra króna, í borginni St. John‘s á Nýfundnalandi. Hún var í kjölfarið ákærð fyrir fjársvik og þjófnað á kreditkortinu.

Eigandi kortsins tilkynnti um þjófnaðinn í gær en svo virðist sem konan hafi notað kortið til ýmissa kaupa.

Í tilkynningu frá Atlantic Lottery, sem gaf út skafmiðann, segir að aðeins séu greiddir út vinningar sem fengist hafa með lögmætum hætti. Þannig mun eigandi kortsins líklega ekki njóta góðs af þjófnaðinum þrátt fyrir að vinningsmiðinn hafi verið keyptur í hans nafni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×