KR-ingar geta í kvöld tryggt sér sæti í fimmta bikarúrslitaleiknum í röð vinni þegar Njarðvík í undanúrslitum Geysisbikars karla í körfubolta. Því hefur engu karlaliði tekist í rétt tæpa þrjá áratugi.
KR hefur unnið tvo bikarúrslitaleiki og tapað tveimur bikarúrslitaleikjum á undanförnum fjórum árum en þeir hafa alltaf unnið undanúrslitaleikinn sinn.
Liðin sem KR hefur unnið í undanúrslitunum undanfarin fjögur áru eru Breiðablik (2018), Valur (2017), Grindavík (2016) og Tindastóll (2015).
Njarðvíkingar fóru í bikarúrslitin fimm ár í röð frá 1986 til 1990 en tímabilið 1990-91 þá datt Njarðvíkurliðið út úr bikarnum eftir tap á móti Grindavík í átta liða úrslitum. KR-ingar unnu síðan bikarinn það vorið.
KR-ingar komust í bikarúrslitaleikinn í sex ár í röð frá 1970 til 1975 en þrjú fyrstu árin fór bikarkeppnin fram fyrir tímabilið.
Leikurinn í kvöld verður fjórði undanúrslitaleikur KR og Njarðvíkur í bikarkeppninni en um leið sá fyrsti síðan 2000 þegar KR-ingar unnu 84-80 í Njarðvík. Þjálfari KR var þá Ingi Þór Steinþórsson eins og núna. Njarðvík hafði betur í undanúrslitunum 1989 en KR vann undanúrslitleik liðanna árið 1982.
Þetta er jafnframt í fjórða sinn sem KR og Njarðvík mætast í bikarleik í Laugardalshöllinni en hingað til hafa þessir leikir þeirra í Höllinni verið bikarúrslitaleikir. KR vann bikarúrslitaleik félaganna 1977 en Njarðvík hefur haft betur í tvö síðustu skipti eða árin 1988 og 2002.
Fimm bikarúrslitaleikir Njarðvíkinga í röð 1986-1990:
1986: Haukar 93-92 Njarðvík
1987: Njarðvík 91-69 Valur
1988: Njarðvík 104-103 KR
1989: Njarðvík 78-77 (71-71) ÍR
1990: Njarðvík 90-84 Keflavík
Fjórir bikarúrslitaleikir KR-inga í röð 2015-2018:
2015: Stjarnan 85-83 KR
2016: KR 95:79 Þór Þ.
2017: KR 78:71 Þór Þ.
2018: KR 69:96 Tindastóll
