Umfjöllun og viðtöl: Grótta - Fram 18-24 │Fram skildi Gróttu eftir á botninum

Svava Kristín Grétarsdóttir skrifar
vísir/daníel
Fram vann 6 marka sigur á Gróttu á Seltjarnarnesi í kvöld, 18-24. Gríðalega mikilvæg stig fyrir Fram sem reif sig aðeins frá botni deildarinnar með þessum sigri. 

Fram tók öll völd á leiknum strax í upphafi, þeir voru agaðari, þéttari varnarlega og Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður liðsins, var frábær í leiknum.  Það hjálpaði heimamönnum ekki að Bjartur Guðmundsson fékk beint rautt spjald þegar stundarfjórðungur var liðinn af leiknum. Grótta hafði náð smá áhlaupi og staðan þá 5-6 Fram í vil en Fram bætti forystuna í kjölfarið og náði fimm marka forystu áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks, staðan að honum loknum, 8-13, gestunum í vil. 

Fram byrjaði síðari hálfleikinn vel og var með 6 marka forskot þegar 8 mínútur voru liðnar, 12-18. Þá misstu þeir aðeins tökin á leiknum og skoruðu ekki mark í 14 mínútur. Heimamönnum tókst þó ekki að jafna leikinn en staðan 16-18 þegar tæpar 10 mínútur voru til leiksloka. 

Grótta tók þá leikhlé sem Fram virtist hafa nýtt sér betur því liðið kom sterkara til baka, lokaði vörninni gjörsamlega og kláraði leikinn að krafti. Lokatölur í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi, 18-24 fyrir Fram sem með 6 marka sigri tókst að vinna innbyrgðis viðureignina gegn Gróttu og stendur því en betur að vígi í fallbaráttunni.

Af hverju vann Fram?

Stemningin var öll gestanna í dag. Frábær leikur og sjaldséður karakter sem Fram sýndi frá fyrstu mínútu. Það hefur vantaði þessa stemningu í liðið, þeir fögnuðu öllu og börðust saman. 

Hverjir stóðu upp úr?

Viktor Gísli Hallgrímsson var frábær og gerði það mikið fyrir liðið að fá svona markvörslu sem slökkti í leikmönnum Gróttu. Þorgrímur Smári Ólafsson átti einnig góðan leik, hann skoraði 11 mörk, þar af 7 úr vítum. 

Í liði heimamanna var enginn með yfirburðar frammistöðu. Atkvæðamestur var Jóhann Reynir Gunnlaugsson með 5 mörk. 

Hvað gekk illa? 

Vörn og markvarsla hjá Gróttu, ótrúlegt en satt þá var það verra en sóknarleikurinn, sem var einnig átakanlega lélegur. Grótta spilaði heilt yfir slakan handbolta og átti ekkert skilið út úr þessum leik. 

Hvað er framundan? 

Bæði lið fá rúmlega tveggja vikna pásu núna en úrslitahelgi Coca-cola bikarsins er framundan. Næstu leikir liðanna eru því sunnudaginn 17. mars þar sem Grótta fer norður yfir heiðar og mætir Akureyri en Fram tekur á móti Stjörnunni. 

 

Einar Jóns: Þetta er engin ríkisstjórn

„Það er óhætt að segja það að frammistaðan var alls ekki góð,“ sagði Einar Jónsson, þjáfari Gróttu, eftir tap Gróttu gegn Fram á heimavelli í kvöld. 

„Við byrjuðum mjög illa, vorum staðir sóknarlega og varnarlega vorum við ekki sjálfum okkur líkir. Við vorum að tapa stöðum sem við erum ekki vanir að tapa og vorum á eftir þeim í öllum aðgerðum.“ sagði Einar 

Vörn og markvarsla hefur oftar en ekki hjálpað Gróttu á tímabilinu en hvorki vörnin né markvarslan datt inn í dag hjá þeim. Einar vildi ekki skella skuldinni á markverði liðsins en segir það hafa verið ansi óheppilegt að velja þennan leik

„Vörnin var nátturlega bara léleg í fyrri hálfleik og þar af leiðandi var markvarslan ekki góð heldur. Auðvitað hefði ég alveg viljað sjá betri markvörslu en anskotinn hafi það Hreiðar er búinn að vera frábær í vetur og dettur svo inná einn slakan leik. Óheppilegt að það skuli akkúrat vera þessi leikur en ég ætla ekki að skella skuldinni á hann.“

Bjartur Guðmundsson, leikmaður Gróttu, fékk beint rautt spjald í fyrri hálfleik eftir að hafa slegið Þorgrím Smára Ólafsson í andlitið. Það var lítið við þeim dómi að segja en Einar og hans menn voru ósáttir á bekknum þegar Þorsteinn Gauti braut á Magnúsi Öder skömmu síðar. 

Einar sagðist hafa viljað sjá rautt á meðan leik stóð en eftir á að hyggja hafi það líklega ekki verið réttur dómur.

„Ég hefði að sjálfsögðu viljað sjá rautt spjald en ég er ekki viss um að það hefði verið réttur dómur. Toni (Anton Gylfi Pálsson) útskýrði það ágætlega fyrir mér hvað gerðist, ég treysti honum fullkomlega fyrir því.“ 

Það er enn ein pásan framundan segir Einar en nú eru rúmar tvær vikur í næsta leik. Einar hefur þá góðan tíma til að undirbúa liðið fyrir aðra hörku viðureign er þeir mæta Akureyri í næstu umferð. 

„Við þurfum að vera betri en við vorum í dag, þessi frammistaða dugar ekki til þess að vinna neitt lið í deildinni.“

En getur Grótta haldið sér uppi í deildinni?

„Að sjálfsögðu, það eru fimm leikir eftir af mótinu held ég. Við getum unnið öll þessi lið sem við eigum eftir að keppa á móti en til þess þurfum við að spila miklu betur en í dag. Ég ætla ekki að fara að fella liðið í beinni útsendingu, þetta er engin ríkisstjórn, við bara höldum áfram og sjáum svo hvað setur,“ segir Einar að lokum.

Guðmundur Helgi: Það eru bara úrslitaleikir framundan

„Frábær karakter sigur hjá okkur í dag“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, að vonum ánægður með sína menn eftir þennan mikilvæga sigur

„Það er æðislegt að menn tengi við síðasta leik og haldi áfram með það sem við vorum að gera þar, það er bara æðislegt“ 



Guðmundur viðurkennir að hann hafi ekki alveg verið rólegur allan leikinn og að honum hafi ekki litist á þetta áhlaup Gróttu í seinni hálfleik. Hann segir þó að það sé alltaf vitað mál að öll lið komi til baka á einhverjum tímapunkti og það hafi bara verið tímaspursmál hvernær það gerðist í þessum leik

 

„Að sjálfsögðu fór aðeins um mann, við vissum að það kæmi alltaf áhlaup frá þeim. Þeir leystu ákveðin mál hjá okkur og á móti breyttu þeir um vörn sem við náðum að klára. En leikskipulagið var allan tíman undir kontról og þar af leiðandi hafði ég engar áhyggjur þannig séð.“ sagði Guðmundur og bætti við að aðal atriðið hafi verið að vinna leikinn með sex mörkum í dag

Grótta vann fyrri leik liðanna í Safamýrinni með fjórum mörkum, 20-24, og hefur því Fram innbyrgðis sigur á þá eftir 6 marka sigurinn í dag og er Guðmundur hæst ángæður með þá útkomu

„Þetta er bara auka stig fyrir okkur, það er bara þannig. Baráttan í deildinni verður svona áfram og það eru bara úrslitaleikir framundan“

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira