Í ályktuninni er RÚV gagnrýnt fyrir að „snýta af afhendingum fagverðlauna Eddunnar, fyrir útsendingu og sýna þau síðan í klipptum stubbum án þakkarræðna,“ og er því bætt við að slíkt sýni vanvirðingu fyrir störfum þeirra fagaðila sem standi að baki íslenskrar kvikmyndagerðar.
RÚV er þá sakað um að hafa eytt meirihluta útsendingarinnar í gærkvöldi í að upphefja eigin verk á kostnað fagfólks í kvikmyndagerð og bent á að hátíðin eigi að vera uppskeruhátíð kvikmyndagerðar frekar en „árshátíð sjónvarpsstöðva.“
Að lokum krefst ÍKS þess að stjórnendur Ríkisútvarpsins og Eddunnar taki á málinu og „komi í veg fyrir að slíkt verði framtíðarformið á þessari faghátíð.“

Ályktun ÍKS í heild sinni má lesa hér að neðan.
Sú ákvörðun RÚV, að snýta af afhendingum fagverðlauna Eddunnar, fyrir útsendingu og sýna þau síðan í klipptum stubbum án þakkarræðna, lýsir vanvirðingu við störf þeirra fjölmörgu fagaðila sem standa að baki íslenskrar kvikmyndagerðar. Stjórnendur RÚV detta í þá gryfju að eyða bróðurparti útsendingartíma í að upphefja eigin verk á kostnað fagmanna í geiranum. Eddan er uppskeruhátíð kvikmyndagerðar á Íslandi, ekki árshátíð sjónvarpsstöðva. ÍKS krefst þess að stjórnendur RÚV og stjórn Eddunnar taki á þessu og komi í veg fyrir að slíkt verði framtíðarformið á þessari faghátíð okkar.