Blikarnir eru fallnir úr Domino´s deild karla í körfubolta en það breytir því ekki að þeir eru „besta“ þriggja stiga skotlið deildarinnar.
Ekkert lið í deildinni hefur nefnilega skorað fleiri þrista en Blikar í deildinni í vetur. Blikar skoruðu tíu þrista á Sauðárkróki í gær og hafa skorað tíu þrista eða fleiri í fimmtán af tuttugu deildarleikjum sínum í vetur.
Breiðablik hefur alls skorað 236 þriggja stiga körfur í 20 leikjum eða 11,8 að meðaltali í leik. Tindastólsliðið skoraði sex fleiri þrista í gær og er nú þremur þristum á eftir Kópavogsliðinu.
Hitt falliðið, Skallagrímur, rekur aftur á móti lestina með aðeins 153 þrista eða 83 þristum færra en Breiðablik. Blikar eru því að skora fjóra fleiri þrista í leik en Borgnesningar.
Blikar eru reyndar bara í áttunda sæti yfir bestu þriggja stiga nýtinguna en þeir hafa sett niður 32,1 prósent þriggja stiga skota sinna á tímabilinu. Ekkert lið hefur reynt fleiri þriggja stiga skot en einmitt Blikar.
Flestar þriggja stiga körfur í Domino´s deild karla 2018-19:
1. Breiðablik 236
2. Tindastóll 233
3. Stjarnan 217 (19 leikir)
4. Njarðvík 211
5. Grindavík 204
6. Keflavík 200
7. Valur 197
8. Þór Þ. 194
9. KR 190 (19 leikir)
10. ÍR 169
11. Haukar 161
12. Skallagrímur 153
Leikmenn Breiðabliks með fleiri en tíu þrista í vetur:
1. Christian Covile Breiðablik 35
2. Árni Elmar Hrafnsson Breiðablik 34
3. Erlendur Ágúst Stefánsson Breiðablik 33
4. Snorri Vignisson Breiðablik 29
5. Hilmar Pétursson Breiðablik 27
6. Kofi Omar Josephs Breiðablik 20
7. Bjarni Geir Gunnarsson Breiðablik 19
8. Arnór Hermannsson Breiðablik 12
