Um er að ræða veiru sem er skyld HIV og er landlæg í Evrópulöndum þar sem sauðfé hefur aðlagast. Segir Valgerður að ein sýkt kind geti valdið ómældu tjóni og reynslan af mæðiveikifaraldrinum sem gekk hér á landi um miðja síðustu öld sýni að farga þurfi öllu sýktu fé á þeim svæðum sem veiran finnst.
Hrátt kjöt er nú þegar flutt til landsins í stórum stíl, en samkvæmt núverandi lögum þarf það að vera fryst í 30 daga. Er þó aðallega um að ræða nauta-, alifugla- og svínakjöt en lítið er flutt inn af kindakjöti. Ef frumvarpsdrög landbúnaðarráðherra verða að lögum verður frystiskyldan afnumin. „Þessi veira þolir ágætlega frystingu, það sem skiptir máli er hvort kjötið er hrátt eða fulleldað. Þetta er spurning um líkur, eftir því sem meira er flutt inn því meiri líkur eru á að þetta berist í kindur,“ segir Valgerður í samtali við Fréttablaðið. Hún hefur fundið veiruna í frönskum sauðaosti sem keyptur var í verslun í Reykjavík.
„Í Frakklandi, á Ítalíu og Spáni, þar sem framleiddir eru fínir sauðaostar, þar er nánast allur bústofninn sýktur og þó þetta valdi júgurbólgum þá er engin leið fyrir þá að ráða við þetta. Ég gáði reyndar ekki hvort veiran væri lifandi, en hún var þarna.“
Valgerður segir að það eina sem þurfi til sé úrgangur þar sem veiran er lifandi. „Ef eitthvert dýr kemst í úrganginn, fuglar, hundar eða refir, þá er hætta á að þetta berist út, jafnvel inn í fjárhús. Líkurnar á þessu eru ekki miklar en eftir því sem innflutningurinn eykst því meiri eru líkurnar. Þá yrði úti um sauðfjárbúskap á þeim svæðum þar sem veiran finnst.“

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir enn of snemmt að segja til um mögulegar breytingar á kjötborðum verslana. „Það þarf ekki endilega að vera að áhrifin verði sjáanleg, við vitum það að Íslendingar kjósa oftar en ekki íslenska framleiðslu fram yfir annað,“ segir Gréta.
Ólíkt grænmeti, þar sem innlend framleiðsla annar ekki eftirspurn, sé yfirleitt nægt framboð af kjöti hér á landi. „Ég tel ólíklegt að það verði flutt inn mikið af ferskum kjúklingi eða kalkúni þar sem það yrði ekki hagkvæmt vegna líftíma vörunnar, það yrði þá frekar nautakjöt eða tilteknar vörur þar sem innlend framleiðsla annar ekki eftirspurn.“