Lífið

Svæpaðu til hægri ef þú vilt stefnumót með kú

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Tudder er afar keimlíkt Tinder.
Tudder er afar keimlíkt Tinder. Mynd/Skjáskot.
Til eru ýmis konar stefnumótasíður og forrit fyrir okkur mannfólkið þegar við viljum reyna fyrir okkur í tilhugalífinu. Frumkvöðull á Bretlandi telur það ekki nóg og hefur þróað stefnumótaforrit fyrir kýr og naut.

Það kannast margir við hugmyndina. Þú vísar viðkomandi til vinstri til að hafna og til hægri ef þú hefur áhuga. Ef báðir vísa hvor öðrum til hægri er hægt að ræða stefnumót. Þannig virkar stefnumótaforritið Tudder, í raun alveg eins og Tinder, nema hvað að það er til að para saman naut og kýr.

Bændur sem vilja leiða saman glæsilegustu dýr sín skrá þau einfaldlega á Tudder og geta svo byrjað að svæpa. Ýmisskonar upplýsingar er að finna um dýrin á forritinu til að ganga úr skugga um að það sé það rétta fyrir kúna eða nautið þitt.

„Menn skrá atriði eins og nyt, prótíninnihald mjólkurinnar og meira að segja hversu auðvelt kýrin á með að bera,“ segir Doug Bairner, höfundur Tudder.

Forritið er orðið nokkuð vinsælt í bændasamfélaginu í Evrópu en um 60 þúsund notendur hafa skráð sig.

„Það eru um 45 þúsund notendur í Bretlandi og við það bætast 4 þúsund úti um allan heim sem nota Tudder. Svo það eru um einn þriðji breskra bænda sem notar síðuna okkar og eins og ég sagði þá eru 14 þúsund nýir notendur úti um allan heim, sem er klikkun.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×