Handbolti

Grétar ekki meira með Eyjamönnum á tímabilinu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Grétar Þór er uppalinn Eyjamaður
Grétar Þór er uppalinn Eyjamaður vísir/valli
Grétar Þór Eyþórsson mun ekki spila meira með Eyjamönnum á þessu tímabili en hann verður frá keppni næsta árið vegna hnémeiðsla. Morgunblaðið greinir frá þessu í morgun.

Grétar meiddist á hné í leik ÍBV og ÍR í 8-liða úrslitum Coca Cola bikars karla í handbolta.

„Þetta er mikið högg og ferlegt svekkelsi og ég er smátt og smátt að melta tíðindin. En eitt er víst að ég lofa að koma sterkari en nokkru sinni fyrr til baka á völlinn,“ sagði Grétar í samtali við Morgunblaðið.

Liðband á innanverðu hnénu er illa farið og tekur það um sex til átta vikur að jafna sig. Þegar það er gróið þá stendur til að Grétar fari í krossbandaaðgerð.

Grétar, sem verður 33 ára í júní, sagðist þó ekki tilbúinn til þess að hætta alveg strax.

„Ég vil hætta á mínum forsendum.“

ÍBV mætir Akureyri í Olísdeild karla í dag í 17. umferð Olísdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×