Handbolti

Missti ekki af leik í átta ár en stefndi á tíu: „Það var oft sem maður var fárveikur“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Einar Rafn Eiðsson, skytta bikarmeistara FH, snéri til baka með stæl um helgina er hann lék lykilhlutverk er FH varð bikarmeistari í handbolta í fyrsta skipti í 25 ár.

Einar hafði ekkert leikið en var mættur í búning á föstudagskvöldið er FH hafði betur gegn ÍR í undanúrslitunum en hann gekkst undir aðgerð í janúar.

„Ég fékk verk í öxlina. Þetta var byrjað að nuddast í sina og það þurfti að skrapa þetta í burtu. Þetta var orðinn tóm þvæla. Það var ekkert annað í stöðunni en að fara í aðgerð og skafa þetta af,“ sagði Einar í samtali við Guðjón Guðmundsson.

Einar hafði ekki misst af leik í rúm átta ár áður en hann missti af nokkrum leikjum í Olís-deildinni nú í febrúar. Hann segir að hann hafi oft verið veikur eða lítilsháttar meiddur en hann hafi samt spilað.

„Ætla að það sé ekki dass af frekju og ætla sér það. Það var oft sem maður var fárveikur eða búinn að snúa sig tveimur dögum fyrir leik en mér leið eins og ef ég myndi missa af leiknum væri ég að bregðast liðsfélögunum.“

„Mér leið eins og ég væri bara að ljúga að móður minni sem ég hef aldrei gert,“ sagði Einar og glotti við tönn. „Það eru allar þessar aukaæfingar og hugsa um sig. Við erum með góða aðstöðu í Krikanum sem hefur hjálpað mér helling.“

Innslagið úr kvöldfréttunum má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×