Handbolti

Valur heldur toppsætinu, HK skellti Haukum og Fram marði botnliðið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sigurbjörg Jóhannsdóttir fer inn úr hægri skyttunni í leik kvöldsins.
Sigurbjörg Jóhannsdóttir fer inn úr hægri skyttunni í leik kvöldsins. vísir/vilhelm
Bikarmeistarar Vals halda toppsætinu í Olís-deild kvenna eftir að liðið vann tólf marka sigur á KA/Þór í Origo-höllinni í kvöld, 30-18.

Valur varð bikarmeistari eftir öruggan sigur á Fram í kvöld en þær voru í stuði í kvöld. Þær voru 16-6 yfir í hálfleik og varð munurinn að endingu tólf mörk.

Ragnhildur Edda Þórðardóttir, Íris Ásta Pétursdóttir og Lovísa Thompson gerðu allar fimm mörk hvor fyrir Val sem er með eins stigs forskot á Fram á toppi deildarinnar.

Martha Hermannsdóttir, Sólveig Lára Kristjánsdóttir og Hulda Bryndís Tryggvadóttir gerðu allar fjögur mörk fyrir KA/Þór sem er í fimmta sæti deildarinnar.

Það var einhver bikarþynnka í liði Fram sem marði botnlið Selfoss með einu marki, 26-25, eftir að Selfoss hafði verið einu marki yfir í hálfleik, 12-11.

Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði sjö mörk fyrir Fram sem er í öðru sætinu, stigi á eftir toppliði Vals, en Selfoss er á botninum. Þær eru fimm stigum á eftir HK er þrjár umferðir eru eftir en Kristrún Steinþórsdóttir gerði fimm mörk fyrir Selfoss.

HK gerði sér lítið fyrir og skellti Haukum, 26-22, í Digranesinu í kvöld. Haukarnir leiddu með einu marki í hálfleik, 12-11. HK er í næst neðsta sætinu með níu stig en Haukar eru í þriðja sætinu með 23 stig, tveimur stigum á undan ÍBV.

Berta Rut Harðardóttir gerði fimm mörk fyrir gestina úr Hafnarfirði en Díana Kristín Sigmarsdóttir átti stórleik fyrir HK. Hún skoraði tíu mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×