Umfjöllun og viðtöl: Fram - Haukar 34-29 | Fram hafði betur í stórleik umferðarinnar

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
vísir/vilhelm
Fram vann öruggan fimm marka sigur á Haukum, 34-29, í hörkuleik í Safamýrinni í dag. Þrátt fyrir að Fram hafi ekki skorað mark í stundarfjórðung af fyrri hálfleik þá leiddu þær með einu marki þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks, 12-11. 

Fram náði strax tökum á leiknum og leiddu með fjórum mörkum eftir 10 mínútur, 8-4. Haukar byrjaði leikinn á að spila 7 á 6 í sókninni og gekk það heldur illa. Fram skoraði fjögur af þessum átta mörkum í opið mark Hauka og neyddist Elías Már, þjálfari Hauka, til að setja Sögu Sif aftur í markið. 

Eftir það breyttist leikurinn, Haukar tóku völdin á vellinum og náðu að jafna leikinn á næstu mínútum, staðan orðin 8-8. Fram stelpunum tókst ekki að skora mark í um stundarfjórðung, en það sem eftir lifði fyrri hálfleiks var leikurinn jafn og það voru heimakonur sem leiddu með einu marki þegar gengið var til búningsklefa, 12-11. 

Jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik, liðin skiptust á að leiða leikinn með einu til tveimur mörkum. Fram hafði síðan betur á loka kaflanum, Haukar reyndu hvað þær gátu og fengu þar af leiðandi auðveld mörk í bakið á síðustu tveimur mínútunum svo fimm marka sigur gefur ekki rétta mynd af leiknum, en lokatölur urðu 34-29, Fram í vil. 

Af hverju vann Fram? 

Fram stóðst prófið í dag. Haukar voru betri aðilin lengst af í leiknum en Fram náði áhlaupinu á réttum tímapunkti og fagnaði sigri. 

Hverjar stóðu upp úr?

Það voru margir leikmenn sem skiluðu góðu dagsverki í liði Fram en Steinunn Björnsdóttir var að vanda þeirra sterkasti leikmaður, stóð vörnina og skoraði 7 mörk. Þórey Rósa Stefánsdóttir og Karen Knútsdóttir voru einnig mjög öflugar, Þórey Rósa með 7 mörk en Karen markahæst með 8 mörk. 

Markvörður Hauka, Saga Sif Gísladóttir, átti mjög góðan kafla í leiknum og varði vel, en náði ekki að halda því út allan leikinn. Berta Rut Harðardóttir var atkvæðamest í liði hafnfirðinga með 8 mörk.  

Hvað gekk illa? 

Liðin spiluðu óagaðan sóknarleik á köflum og gekk illa að halda boltanum innan síns liðs. Fram datt algjörlega niður í fyrri hálfleik og óvanalegt að sjá þær spila svona sóknarleik eins og þær sýndu á því korteri þar sem þeim tókst ekki að skora. 

Hvað er framundan? 

Síðast umferðin fer fram á þriðjudaginn þar sem bæði lið fá gott próf fyrir úrslitakeppnina, Fram mætir deildar og bikarmeisturum Vals og Haukar mæta ÍBV. 

Elías Már: Það er engin óska mótherji í þessu

„Við vorum betri aðilinn í 40 mínútur af leiknum“ sagði Elías Már Halldórsson, þjálfari Hauka, að leik loknum. 

„Við lentum í smá brasi í byrjun þegar þær fóru í 3-3 en leystum það strax og komumst inní leikinn. Svo töpuðum við of mikið af boltum í fyrri hálfleik og fáum á okkur mörg mörk í opið markið. Það er kannski alveg eðlilegt því það er ekki langt síðan við fórum að æfa þetta 7 á 6. Við ætlum okkur að nota þetta áfram ennn 6 á móti 6 vorum við betri í dag, miklu betri“ sagði Elías Már

Fram byrjaði leikinn betur og nýtti sér veikleika Hauka. Elías viðurkennir að 7 á 6 kerfið hafi ekki gengið að óskum í upphafi leiks enda fengu þær alltof mörg mörk á sig á opið marki. 

„Fram skora 4 mörk úr uppstilltri sókn í fyrri hálfleik, hitt var eftir okkar klaufa mistök og áhættur sem við vorum að taka“ 

Þetta er þriðja tap Hauka í röð í deildinni en Elías segist ekkert vera að hugsa út í það heldur vilji hann klára síðasta leikinn á sigri en þá mætir liðið einmitt ÍBV, sem er í baráttunni við Hauka um 3. sæti deildarinnar

„Ég er ekkert að hugsa út í það, ég ætla bara að fara í leikinn á þriðjudaginn og vinna á móti ÍBV. Við fáum svo einhverja andstæðinga í úrslitakeppninni og mætum brjálaðar í þá keppni og ætlum okkur einhverja sigra þar og sjá hvert við komumst með það“ 

Lendi Haukar í 3. sæti mæta þær Fram í úrslitakeppninni en 4. sætið færir þeim deildarmeistara Vals. Elías segist ekki hafa neinn óska mótherja

„Það er engin óska mótherji í þessu, Valur og Fram eru bæði með frábær lið og við verðum bara að taka því sem kemur“



Stefán: Valur er lang besta liðið

„Það er gott að vinna“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Fram, ánægður með lokatölur leiksins

„Við vorum að fá þokkaleg færi en vorum ekki að skora úr þeim. Það er magnað að við höfum skorað 34 mörk í þessum leik eftir að hafa ekki skorað á einhverjum 14 mínútna kafla í fyrri hálfleik.“  

Fram átti afleiddan kafla í fyrri hálfleik en liðið hélt sér alltaf inní leiknum og leiddi þrátt fyrir allt með einu marki þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks

„Við vorum að prófa ný varnarafbrigði en að fá á sig 29 mörk er alltof mikið.“ sagði Stefán og segist vera heilt yfir ánægður með leikinn þrátt fyrir slæma kafla

„Ég er ánægður með leikinn, því að við ætluðum að prófa þarna ný varnar afbrigði, við gerðum það og mörg gengu vel. Sóknarleikurinn í seinni hálfleik gekk líka vel og fyrstu mínúturnar í fyrri. Það koma auðvitað alltaf kaflar í öllum leikjum þar sem þú ert ekki að ná þér á strik“

„En við héldum alltaf áfram og vörnin hélt allan leikinn eða allavega í gegnum slæma kaflann í fyrri hálfleik, hún var ekki eins góð í seinni hálfleik.“

Stefán sagði það fyrir leik að Valur væri orðið deildarmeistari, hann hafði litla trú á því að þær myndu henda þeim titli frá sér. Hann hafði rétt fyrir sér og fagnaði Valur titlum í dag. Stefán segir að Valsliðið sé það besta á landinu og það verði erfitt fyrir liðin í úrslitakeppninni að stöðva þær. 

„Ég vil bara óska Val til hamingju með deildarmeistara titilinn, þær eru nátturlega lang besta liðið. Liðið sem vinnur deildina er besta liðið og það verður mjög erfitt fyrir Hauka, ÍBV eða Fram að vinna þær.“

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira