Um er að ræða uppfærslu á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar frá því í fyrra, gert er ráð fyrir auknum fjárframlögum en einnig aðhaldi upp á fimm milljarða.

Gert er ráð fyrir fjórum milljörðum á ári til þess að gera kerfisbreytingar. Málið er í höndum starfshóps sem mun afhenda félagsmálaráðherra skýrslu í vikunni.
Stjórn Öryrkjabandalagsins neitaði að skrifa undir skýrsluna og er því framhaldið óljóst.
Til stendur að auka heildarframlög ríkissjóðs til fjárfestinga á tímabilinu.
Árið 2021 er gert ráð fyrir að fjárfesting sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu nái hámarki í 3,7 prósentum en fari svo lækkandi og endi í 3,1 prósenti árið 2024. Mest verður fjárfest í samgöngumálum, fyrir 124 milljarða, þar á eftir kemur sjúkrahúsþjónusta fyrir 74 milljarða. Er ýjað að því að til standi að selja hluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sem og öðrum opinberum fyrirtækjum, til að auka svigrúm til fjárfestinga í innviðum.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, notaði helgina til að lesa fjármálaáætlunina. Hann segir vissulega margt jákvætt þar að finna, nefnir hann sérstaklega framlög til nýsköpunarmála, en í heild sinni sé áætlunin ómarkviss og óljós og þar að auki sé gert ráð fyrir auknum útgjöldum til ýmissa málaflokka án þess að vitað sé hvað gera eigi við fjármunina.
„Þetta er fyllilega ónákvæmt og algjör óskhyggja. Það er heldur engin leið fyrir venjulegt fólk að átta sig á hvað ríkisstjórnin ætlar að gera,“ segir Björn Leví. „Ég er búinn að skoða þetta í tvo daga, þetta eru fimm hundruð blaðsíður og fyrir mér lítur þetta út eins og fimm hundruð blaðsíður sem er ætlað að fela það að þau hafi ekkert að segja. Það væri ekkert mál að segja þetta skýrt ef það væri í raun og veru einhver skýr stefna í þessu. Þetta eru bara orð og lýsingar fram og til baka um eitthvað sem skiptir engu máli. Ég vil fá að vita hver stefnan er, hvað hún kostar og hver áhrifin verða, það er fjármálaáætlun. Þetta er bara bull.“