Á vef Seðlabankans kemur fram að nokkuð hafi hægt á hagvexti á seinni hluta síðasta árs frá því sem hann hafði verið á fyrri hluta ársins. Hagvöxtur var 4,6% á árinu öllu en í febrúarspá sinni hafði Seðlabankinn gert ráð fyrir að hann yrði 4,3%. Nýlegar vísbendingar um efnahagsumsvif og af vinnumarkaði benda til þess að spenna í þjóðarbúskapnum haldi áfram að minnka.
Nú klukkan 10:00 hefst vefútsending þar sem Már Guðmundsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar, og Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri og nefndarmaður í peningastefnunefnd, gera grein fyrir ákvörðun nefndarinnar og þeim rökum sem að baki liggja.
Talið er líklegt að verðbólga aukist eitthvað fram eftir ári en hvað verður er háð niðurstöðu kjarasamninga sem ekki liggur fyrir.
Langtímaverðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja hafa hækkað en verðbólguálag á skuldabréfamarkaði lækkað. Á alla mælikvarða eru langtímaverðbólguvæntingar enn yfir verðbólgumarkmiðinu. Væntingar um verðbólgu til skamms tíma hafa lítið breyst frá síðasta fundi peningastefnunefndar og því er taumhald peningastefnunnar, eins og það mælist í raunvöxtum Seðlabankans, óbreytt frá fyrri fundi.
Peningastefnan muni á næstunni ráðast af samspili minni spennu í þjóðarbúskapnum, launaákvarðana og þróunar verðbólgu og verðbólguvæntinga.
Peningastefnunefnd ítrekar að hún hefur bæði vilja og þau tæki sem þarf til að halda verðbólgu og verðbólguvæntingum við markmið til lengri tíma litið. Það gæti kallað á harðara taumhald peningastefnunnar á komandi mánuðum. Aðrar ákvarðanir, einkum á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum, munu skipta miklu um hvort svo verður og hafa áhrif á hversu mikill fórnarkostnaður verður í lægra atvinnustigi.