Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Valur 20-24 | Seiglusigur Vals á Ásvöllum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Díana Dögg Magnúsdóttir.
Díana Dögg Magnúsdóttir. Vísir/Bára
Valur er með annan fótinn í úrslitaeinvígi Olísdeildar kvenna eftir sigur á Haukum í öðrum leik undanúrslitaviðureignar liðanna. Eftir erfiða byrjun fór Valur með öruggan fjögurra marka sigur.

Leikurinn fór frekar hægt af stað hvað markaskorun varðar og var ekki mikið skorað í fyrri hálfleik. Báðir markverðirnir tóku marga bolta í upphafi og fyrsta markið kom ekki fyrr en á fjórðu mínútu leiksins og það úr hraðaupphlaupi.

Eftir tíu mínútna leik var staðan 2-3 fyrir Val en þá hættu Valskonur að skora. Haukar tóku 3-0 kafla þar sem sóknarleikur Vals var í molum. Þær hefðu hins vegar getað refsað enn frekar en fengu það í bakið undir lok hálfleiksins.

Þá komu deildarmeistararnir sér aftur inn í leikinn og náðu að jafna. Á 27. mínútu, í stöðunni 7-6, braut Ragnheiður Sveinsdóttir harkalega á Díönu Dögg Magnúsdóttur í hraðaupphlaupi og fékk að líta beint rautt spjald. Díana kláraði hins vegar skotið og jafnaði leikinn.

Valskonur nýttu sér liðsmuninn og skoruðu síðustu tvö mörk fyrri hálfleiks og fóru með 7-9 forystu inn í hálfleikinn.

Haukar byrjuðu fyrstu mínúturnar í seinni hálfleik mjög vel og náðu að jafna leikinn en svo hætti sóknarleikurinn að ganga hjá þeim og Valur refsaði grimmt. Haukar skoruðu ekki mark á sjö mínútna kafla og Valskonur byggðu upp forystuna sem tryggði þeim sigurinn á þeim tíma.

Heimakonur komu aðeins til baka undir lok leiksins en sigurinn var að lokum mjög öruggur hjá gestunum, 20-24

Af hverju vann Valur?

Valskonur eru með mjög sterkt lið og þær fóru þennan leik svolítið á seiglunni. Þær stóðu vörnina vel svo Haukar gátu ekki refsað þeim fyrir mistökin sem þær gerðu í sókninni. Áhlaupið í byrjun seinni hálfleiks tryggði svo í raun sigurinn.

Þegar munurinn var kominn upp í fimm, sex mörk þá vissu Haukakonur að brekkan væri orðin brött og það fór líklega smá trú á verkefninu og þær voru í raun aldrei líklegar til að stela sigrinum í lokin.

Hverjar stóðu upp úr?

Ásgerður Glódís Gísladóttir átti frábæran leik í marki Hauka og það er henni að þakka að ekki fór enn verr í seinni hálfleik. Hún varði þrjú vítaköst og tvö dauðafæri og endaði með 35 prósenta markvörslu. Kollegi hennar hinu megin, Íris Björk Símonardóttir, endaði í 36 prósenta markvörslu þrátt fyrir að eiga engan stórleik á hennar mælikvarða.

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir endaði á meðal markahæstu manna Vals, markaskorun dreifðist mjög og voru þær þrjár markahæstar með fjögur mörk, ásamt því að vera með 7 löglegar stöðvanir og 4 varin skot í vörninni.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur beggja liða var alls ekki til útflutnings. Misheppnaðar sendingar og boltinn gekk hægt á milli manna. Valskonur náðu aðeins að bæta sinn leik í seinni hálfleik, enda væntanlega fengið væna kennslustund í hálfleiknum, en Haukar féllu algjörlega í sóknarleiknum í seinni hálfleik.

Hvað gerist næst?

Þessi lið mætast í þriðja skipti á fimmtudaginn, 11. apríl, og þá er að duga eða drepast fyrir Hauka. Valskonur klára einvígið og senda Hauka í sumarfrí með sigri á Hlíðarenda.

Ágúst: Ekki okkar besti leikur

„Varnarleikurinn var heilt yfir góður. Við byrjuðum á því að ströggla aðeins, sérstaklega sóknarlega, en við vorum betri í seinni hálfleik og náum að keyra þokkalega á þær,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals.

„Þetta var bara hörkuleikur og við þurftum að hafa mikið fyrir þessu.“

„Flæðið var ekki nógu gott, sérstaklega í fyrri hálfleik, en svo fengum við betra tempó í seinni hálfleik. Fleiri leikmenn rifu sig upp og við fengum flott framlag sem er gott.“

Hvað var hann ánægðastur með í Valsliðnu? „Varnarleikinn og liðsheildina, eins og oft áður í vetur. Við vorum ekki að spila okkar besta leik en náðum jafnt og þétt að malla þessu í hús.“

Magnús: Þurfum að eiga mjög góðan leik til að vinna þær

„Það vantaði helst upp á að nýta færin betur í þessum leik. Við erum að fá of mörg hraðaupphlaup í bakið eftir lélega nýtingu í sókninni. Við töpuðum einhverjum þrettán boltum og þær refsa okkur fyrir það, það var eiginlega munurinn á liðunum í dag,“ sagði Magnús Guðbjörn Sigmundsson, þjálfari Hauka.

Valskonur voru ekki að spila sinn besta leik og áttu slæma kafla í sóknarleiknum þar sem Haukar hefðu getað refsað betur.

„Já, alveg klárlega. Við hefðum getað refsað en Valsliðið er gríðarlega sterkt og við þurfum að eiga mjög góðan leik til að vinna þær.“

„Við áttum aðeins betri leik í dag en í síðasta leik, en við þurfum að stoppa þessi hraðaupphlaup hjá þeim. Það gerum við með því að nýta færin betur, þá fáum við ekki þessi ódýru mörk á okkur.“ 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira