Handbolti

Ásbjörn markakóngur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásbjörn skoraði níu mörk á sínum gamla heimavelli í kvöld og gulltryggði sér markakóngstitilinn.
Ásbjörn skoraði níu mörk á sínum gamla heimavelli í kvöld og gulltryggði sér markakóngstitilinn. vísir/bára
Ásbjörn Friðriksson, spilandi aðstoðarþjálfari FH, skoraði flest mörk allra í Olís-deild karla. Deildarkeppninni lauk í kvöld.

Fyrir lokaumferðina var Ásbjörn með átta marka forskot á KA-manninn Tarik Kasumovic. Þeir mættust í KA-heimilinu í kvöld.

Ásbjörn var magnaður í fyrri hálfleik á sínum gamla heimavelli og skoraði þá átta af níu mörkum sínum. Það var aldrei neinn möguleiki á að hann myndi láta markakóngstitilinn af hendi, jafnvel þótt hann hvíldi stóran hluta seinni hálfleiks. Mörkin níu dugðu FH þó skammt því KA vann, 29-26.

Ásbjörn endaði með 151 mark, 14 mörkum meira en Tarik sem skoraði þrjú mörk í kvöld. Samherji hans hjá KA, Áki Egilsnes, var þriðji á markalistanum með 133 mörk. Hann skoraði átta mörk í leiknum í kvöld.

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, leikmaður Fram, var fjórði markahæstur með 123 mörk. Selfyssingurinn Elvar Örn Jónsson var fimmti með 115 mörk.

Þetta er í annað sinn á þremur árum sem markahæsti leikmaður efstu deildar karla kemur úr FH. Einar Rafn Eiðsson var markakóngur tímabilið 2016-17 með 185 mörk.

Af 151 marki Ásbjörns á tímabilinu komu 58 af vítalínunni. Hann skoraði flest mörk allra leikmanna Olís-deildarinnar úr vítum. Valsmaðurinn Anton Rúnarsson kom næstur með 47 vítamörk.

Markahæstu leikmenn Olís-deildar karla tímabilið 2018-19:

1. Ásbjörn Friðriksson, FH - 151 mörk

2. Tarik Kasumovic, KA - 137

3. Áki Egilsnes, KA - 133

4. Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, Fram - 123

5. Elvar Örn Jónsson, Selfoss - 115

6. Egill Magnússon, Stjarnan - 110

7. Aron Dagur Pálsson, Stjarnan - 109

8.-9. Anton Rúnarsson, Valur - 108

8.-9. Magnús Óli Magnússon, Valur - 108

10. Ihor Kopyshynskyi, Akureyri - 105


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×