Dregist hefur um tvær klukkustundir að skrifa undir kjarasamninga í húsakynnum ríkissáttasemjara við Borgartún. Enn liggur ekkert fyrir um hvenær skrifað verði undir. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, taldi um fjögurleytið að skrifað yrði undir á allra næstu mínútum.
Formenn Eflingar og VR tjáðu fréttastofu um fimmleytið að ómögulegt væri að fullyrða klukkan hvað skrifað yrði undir. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, undirstrikaði þó að skrifað yrði undir. Þetta væri einfaldlega mikið verk sem þyrfti að vanda til.
Fylgst er grannt með gangi mála á fréttastofunni og staðið hefur til að sýna beint frá undirskriftinni. Í öllu falli verður fréttastofan í beinni útsendingu í kvöldfréttatímanum þar sem greint verður frá nýjustu tíðindum.
Áfram verður fylgst með gangi mála í vaktinni á Vísi.
Engin leið að segja hvenær skrifað verður undir
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
