Erlent

Tæplega þrjú hundruð manns handteknir á loftslagsmótmælum

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmæli Útrýmingarbyltingarinnar hófust í gær og eiga að standa til 29. apríl.
Mótmæli Útrýmingarbyltingarinnar hófust í gær og eiga að standa til 29. apríl. Vísir/EPA
Breska lögreglan handtók 290 mótmælendur fyrir að loka götum í miðborg London. Mótmælendurnir krefjast aðgerða í loftslagsmálum og hafa hótað því að „loka“ London í tvær vikur.

Aðgerðir mótmælendanna hafa valdið miklum röskunum á umferð í London í dag. Lögreglan segir að um hálf milljón manna hafa orðið fyrir áhrifum af því að breyta þurfti 55 strætisvagnaleiðum í dag. Breska ríkisútvarpið BBC segir að hluti mótmælendanna ætli að verja nóttinni í tjöldum í miðborginni.

Mótmælin ganga undir yfirskriftinni Útrýmingarbyltingin en hreyfingin sem stendur að henni hóf aðgerðir í fyrra. Félagar í henni hafa meðal annars lokað brúm, hellt gerviblóði á stéttina fyrir utan Downing-stræti, mótmælt fyrir utan höfuðstöðvar BBC og hálfnaktir á þingpöllum. Hreyfingin er sögð krefjast þess að stjórnvöld „segi satt“ um loftslagsbreytingar, losun gróðurhúsalofttegunda verði hætt fyrir árið 2025 og stofnað verði borgararáð til að koma á breytingum.

Sadiq Khan, borgarstjóri London, segist deila ástríðu mótmælendanna en að hann hafi miklar áhyggjur af áformum þeirra um að trufla neðanjarðarlestarferðir á morgun. Nauðsynlegt sé að fólk geti nýtt sér almenningssamgöngur til að taka á loftslagsbreytingum.

„Að beina spjótum að almenningssamgöngum með þessum hætti myndu aðeins skaða málstað okkar allra sem viljum taka á loftslagsbreytingum auk þess að stefna öryggir Londonarbúa í hættu og ég biðla til hvers þess sem íhugar að gera það um að hugsa sig tvisvar um,“ segir Khan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×