Umfjöllun og viðtöl: Fram - ÍBV 34-29 | Fram í úrslit

Benedikt Grétarsson skrifar
vísir/bára
Íslandsmeistarar Fram munu freista þess að verja titil sinn eftir öruggan sigur gegn ÍBV 34-29. Fram leiddi allan leikinn og vann einvígið 3-0.  

Karen Knútsdóttir skoraði 10 mörk fyrir Fram og Erla Rósa Sigmarsdóttir varði 11/1 skot í markinu. Markahæst gestanna var Arna Sif Pálsdóttir með níu mörk og Andrea Gunnlaugsdóttir varði átta skot í markinu.

Það þarf í raun ekki að hafa mörg orð um þennan leik, slíkir voru yfirburðir Íslandsmeistaranna á heimavelli sínum í Safamýrinni. Fram byrjaði af fítonskrafti og komst í 7-0. Staðan var orðin 10-1 skömmu síðar og ljóst í hvað stefndi.

ÍBV til hrós, þá gáfust þær ekki upp og náðu að minnka munin áður en hálfleiksflautan gall. Staðan í hálfleik var 19-11 og hamarinn nánast ókleifur fyrir gestina úr Eyjum.

Munurinn fór fljótlega aftur í 10 mörk en þá kom fínn kafli ÍBV sem minnkaði muninn í sex mörk, 26-20. Þá kveikti Karen Knútsdóttir á turbo-gírnum, raðaði inn mörkum og munurinn rauk aftur í 10 mörkin.

Þar með var ágæt barátta ÍBV brotin á bak aftur og Fram vann öruggan sigur, 34-29.

Af hverju vann Fram leikinn?

Heimakonur voru einfaldlega betri á öllum sviðum handboltans í þessum leik. Varnarleikur og markvarsla voru lengstum í fínu lagi og sóknarleikurinn var vel smurður að venju. Sigureinn var öruggur, sanngjarn og kannski fyrirsjáanlegur.

Hverjar stóðu upp úr?

Karen Knútsdóttir var frábær og í algjörum sérflokki á löngum kafla í seinni hálfleik. Liðsheild Fram fær líka þetta eftirsóknarverða hrós í kvöld. Það var nánast alveg sama hver kom inn á völlinn, allar skiluðu fínu framlagi og lykilmenn stigu upp á andartökum þegar þurfti að stíga upp.

Greta Kavaliauskaite var mjög áræðinn og krækti í fjölmörg vítaköst fyrir ÍBV. Arna Sif Pálsdóttir lét finna vel fyrir sér á línunni að venju.

Hvað gekk illa?

Lykilmenn ÍBV voru margar hverjar ekki að leika vel. Til að eiga möguleika gegn Fram þurfa leikmenn eins og Ester Óskarsdóttir og Karólína Bæhrenz að leika betur en í kvöld en það væri samt alltof mikil einföldun að hengja þetta tap eingöngu á þessa skýringu.

Hvað gerist næst?

Fram bíður eftir mótherjum í úrslitaeinvíginu um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn. Það má mikið breytast til að það verði ekki Valur og Fram sem mætist enn einu sinni í þeirri baráttu en Valur er 2-0 yfir gegn Haukum þegar þetta er skrifað Eyjakonur fara í snemmbúið sumarfrí og ætla væntanlega að safna liði og gera enn betur á næsta tímabili. Orðrómur er um að Ester Óskarsdóttir yfirgefi liðið en þetta skýrist allt í sumar og haust. Gleðilega þjóðhátíð.

Hrafnhildur tekur sér frí frá þjálfun: Ætla að prófa að stjórna mínu lífi sjálf

Hrafnhildur Skúladóttir viðurkenndi að slæm byrjun ÍBV hefði kostað alla möguleika gegn Fram, þegar Íslandsmeistararnir unnu ÍBV 34-29 og einvígi liðana 3-0.

„Þetta er bara það sama og gerist í seinasta leik þegar við hleypum þeim í góða forystu og það er bara hrikalega erfitt að þurfa að elta svona allan leikinn.

Við gerum okkur sekar um ömurleg mistök sem við ætluðum að forðast og t.d. einhver 11 hraðupphlaup í andlitið í fyrri hálfleik. Eftirleikurinn varð svo frekar auðveldur fyrir þær,“ sagði Hrafnhildur eftir leik.

„Það er flott að skora 29 mörk en á sama tíma er alltof mikið að fá á sig 34 mörk. Þetta var erfitt en liðið var alveg að gefa sig á fullu í þetta og það er jákvætt. Það var engin uppgjöf í stelpunum og það er alltaf gott að sjá sem þjálfari.“

Hrafnhildur ætlar að taka langþráða hvíld frá handbolta, nú þegar þessu tímabili er formlega lokið.

„Ég er búin að ákveða að fara í pásu frá þjálfun og setja sjálfa mig og fjölskylduna í fyrsta sæti. Mín framtíð er því ráðin, a.m.k. næsta árið,“ sagði Hrafnhildur.

En er ekki von á þessari miklu keppnismanneskju aftur í þjálfun?

„Ég vona svo sannarlega að ég snúi aftur seinna í þjálfun. Ég var búin að ákveða eftir að ég hætti að spila að gefa mér sjálfri og ekki síst fjölskyldunni meiri tíma.

Handboltinn hefur stjórnað öllu mínu lífi allan minn feril og ég hef aldrei getað skipulagt neitt vegna handboltans. Maður fær júlí sem frímánuð og þá er maðurinn minn að vinna á fullu, þannig að maður er ekkert að skjótast í helgarferð eitthvað eða gera nokkurn skapaðan hlut.“

„Mig hlakkar mikið til að upplifa örlítinn tíma fyrir sjálfa mig og að fá að stjórna sjálfri mér. Eins stjórnsöm og ég er, þá hef ég ekki haft mikla stjórn á mínu eigin lífi,“ sagði Hrafnhildur brosandi að lokum.

Stefán: Gústi er myndarlegur maður

„Ég er mjög sáttur við að komast í úrslitaeinvígið og að vera búinn að klára þetta. Það er reyndar alltaf gaman að fara til Eyja en eins og veðurspáin er núna um helgina, þá var það ekkert frábær valmöguleiki. Það er mjög gott að klára þetta,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Fram eftir öruggan 34-29 sigur liðsins gegn ÍBV.

Grunnurinn var lagður í fyrri hálfleik en Stefán var ekkert sérstaklega sáttur við seinni hálfleikinn hjá sínu liði.

„Við spiluðum vel varnarlega í fyrri hálfleik og fengum í kjölfarið markvörslu. 11 mörk á sig er mjög gott en að fá síðan á sig 18 mörk í seinni hálfleik er ekki gott. Ef við spilum svona vörn í úrslitunum, eigum við ekki séns.“

Fram mætir að öllum líkindum Val í úrslitaeinvígi um titilinn og þar mætir Stefán sínum gamla fjandvini og þjálfara Vals, Ágústi Jóhannssyni.

„Gústi er enginn gamall fjandi, hann er ungur og myndarlegur maður. Valur klárar pottþett einvígið við Hauka og vonandi verður úrslitarimman hjá Fram og Val skemmtileg. Við verðum samt að spila betur en í kvöld ef við ætlum okkur að taka titilinn þriðja árið í röð,“ sagði Stefán nokkuð léttur.

En er hann ennþá sannfærður að Valur sé með besta liðið?

„Ég hef alltaf sagt að taflan lýgur ekki . Þær eru deildar- og bikarmeistarar, þannig að þær eru mun líklegri en við. Við erum samt með gott handboltalið en þurfum að bæta margt eins og sást best hérna í seinni hálfleik,“ sagði Stefán Arnarson

Karen:  Gekk allt upp í fyrri hálfleik

Karen Knútsdóttir átti mjög góðan leik fyrir Fram gegn ÍBV og skoraði 10 mörk.

„Við byrjuðum þennan leik virkilega vel og það gekk eiginlega allt upp hjá okkur í fyrri hálfleik. Við náðum að halda ágætu forskoti út leikinn þó að gæðin hafi minnkað og þær komið með áhlaup. Við héldum þetta út og það var mjög mikilvægt.“

Seinni hálfleikurinn var ekki nógu góður varnarlega hjá Fram.

„Já, algjörlega. Við ætluðum að halda áfram sama varnarleik og við spiluðum í fyrri hálfleik en það er kannski svolítið óraunhæft gegn svona sterku liði. Munurinn í lokin var kannski minni en við vildum en sigurinn var bara fínn,“ sagði Karen ennfremur.

Fram mætir líklega deildar- og bikarmeisturum Vals í sjálfu úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. Hvernig leggst slíkur Reykjarvíkurslagur í landsliðskonuna?

“Mér list rosalega vel á það. Þetta gæti orðið mjög spennandi einvígi sem engine leið er að spá fyrir. Þær eru líklega með besta varnarlið landsins og við teljum okkur vera með bestu sóknina.Vonandi tökum við titilinn.“

Stefán Arnarson hefur verið duglegur að tala upp Valsliðið og Karen er svo sem ekkert fjarri þjálfaranum í þeim málum.

„Þær eru bara með virkilega gott lið og hafa sýnt það í vetur með því að taka alla titla hingað til og eru að standa undir nafni,“ sagði Karen að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira