Tvö Valslið og eitt Framlið geta í kvöld tryggt sér sæti í úrslitaeinvígi sinnar deildar og verður hægt að fylgjast með öllum þremur leikjunum í beinni á Stöð 2 Sport.
Lið Vals og Fram eru bæði komin í 2-0 í undanúrslitaeinvígum sínum í Olís deild kvenna í handbolta. Þau vantar því aðeins einn sigur í viðbót og spila bæði á heimavelli í kvöld.
Fram tekur á móti ÍBV klukkan 18.30 og Valur fær Hauka í heimsókn klukkan 20.00. Báðir leikirnir verða sýndir á eftir hvorum öðrum á Stöð 2 Sport 5. Vinni Fram og Valur leiki sína þá mætast þau í úrslitaeinvíginu annað árið í röð.
Áður en kemur að leik handboltastelpanna í Val þá geta körfuboltastelpurnar verið búnar að tryggja sér sæti í úrslitaeinvígi Domino´s deildar kvenna í körfubolta.
Valur er 2-0 yfir á móti KR og tryggir sér sæti í lokaúrslitunum annað árið í röð sem sigri í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18.00 er sýndur beint á Stöð 2 Sport 6.
Vinni Valur þriðja leikinn í röð á móti KR í kvöld þá bíður liðsins úrslitaeinvígi á móti annaðhvort Stjörnunni eða Keflavík. Keflavíkurkonur minnkuðu muninn í 2-1 í gærkvöldi en næsti leikur er á heimavelli Stjörnuliðsins.
