Markmiðið með plokkinu er að hreinsa til í umhverfinu, tína rusl og koma því í endurvinnslu. Skipulagt plokk fór fram víða um land í dag en Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra setti stóra plokkdaginn formlega klukkan tíu í morgun. Forsetahjónin voru svo mætt í Garðabæinn síðdegis ásamt fleirum öflugum plokkurum.
„Fólk er búið að vera mjög duglegt á undan okkur. Þetta er ekki mjög mikið hér,“ sagði Eliza Reid forsetafrú þegar fréttastofa náði af henni tali við plokk í Garðabænum í dag. „Ég er kannski ekki mest dugleg en ég get sagt að Guðni sé mjög duglegur að gera þetta, hann er mjög duglegur þegar hann fer út að skokka.“

Verst þykir honum að sjá sígarettustubba og annað rusl sem augljóst er að einhver hefur skilið eftir. „Mikið af þessu er bara svona fokrusl, gamall korkur og eitthvað sem kemur bara með veðri og vindum og verður kannski ekkert ráðið við. En það sem er kannski ögn meira pirrandi eru sígarettustubbarnir sem er allt of mikið af og fólk er kannski að fleygja í hugsunarleysi eða leti.“
Unga kynslóðin lét sitt ekki eftr liggja en þær Steinunn Stefánsdóttir og Lydía Dhour Friðfinnsdóttir voru meðal þeirra sem plokkuðu við hlið forsetans í dag. Aðspurð segist Steinunn hafa fundið mikið rusl í dag. „Við höfum fundið bara alls konar,“ segir Lydía.
