Handbolti

Einar Andri: Ég verð áfram

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Einar Andri og Ásgeir verða áfram í Mosfellsbænum.
Einar Andri og Ásgeir verða áfram í Mosfellsbænum. vísir/bára
„Þetta er hörkuleikur í 50 mínútur. Við þurftum að taka sénsa undir lokin og það fór alveg með þetta“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir tíu marka tap gegn Val í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Olís-deildarinnar.

Tíu marka tap gefur ekki alveg rétta mynd af þessum leik en hvað gerðist í síðari hálfleik?

„Mjög góður fyrri hálfleikur hjá okkur en byrjum seinni hálfleikinn illa og lendum 4-5 mörkum undir. Við náðum þessu aðeins til baka aftur en svo var þetta bara lélegt hjá okkur í lokin, fókusinn var bara því miður farinn.“

Sóknarlega voru Afturelding að ströggla mest allan leikinn, voru klaufar og nýttu færin sín illa. Einar Andri segir að liðið hafi verið að koma sér í fín færi en að þeir hafi aðallega verið í vandræðum með Daníel Frey í markinu.

„Við vorum aðallega í basli með Danna (Daníel Freyr Andrésson) í markinu, hann var stórkostlegur í báðum þessum leikjum og á allt hrós skilið, að öðru leyti fannst mér við alveg leysa þetta ágætlega“

Afturelding er komið í sumarfrí og Einar Andri segist ekki vera að fara neitt, hann verður áfram með liðið á næstu leiktíð.

„Nú er bara sú vinna í gangi, Elvar er að fara og við reynum að fylla hans skarð og mæta með hörkulið næsta vetur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×