Fótbolti

Allegri á förum frá Juventus

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Allegri hefur átt frábæra tíma hjá Juventus.
Allegri hefur átt frábæra tíma hjá Juventus. vísir/getty
Ítalíumeistarar Juventus eru í þjálfaraleit en það er nú orðið ljóst að Massimiliano Allegri hættir með liðið í sumar.

Hinn 51 árs gamli Allegri hefur átt frábæran feril hjá Juve sem hann hefur stýrt frá 2014. Hann hefur gert liðið að Ítalíumeisturum öll árin en ekki náð að fara alla leið með liðið í Meistaradeildinni. Tvsivar fór liðið þó í úrslit undir hans stjórn.

Allegri hefur alls gert lið sex sinnum að Ítalíumeisturum því hann náði líka að hampa þeim stóra með AC Milan árið 2011. Ítalska bikarinn vann hann líka fjögur ár í röð með Juventus en það hafðist ekki í ár.

Hann er með 71 prósent vinningshlutfall sem þjálfari Juventus sem er það besta í sögu félagsins. Undir hans stjórn tapaði liðið aðeins 36 leikjum. Í deildinni tapaði liðið aðeins 19 leikjum og þar var Allegri með 76 prósent vinningshlutfall.

Það verða eflaust margir um hituna hjá Juve enda eftirsótt starf og að sama skapi vilja mörg félög eflaust fá Allegri í vinnu hjá sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×