Samkeppniseftirlitið hefur ógilt samruna sem áformaður var með kaupum Samkaupa hf. á tveimur verslunum Basko verslana ehf. á Akureyri og í Reykjanesbæ.
Á vef Samkeppniseftirlitsins segir að það hafi verið mat stofnunarinnar að kaupin hefðu „raskað verulega samkeppni á þessum tilteknu landssvæðum.“ Þannig hefði eiginlegum keppinautum fækkað úr þremur í tvo á Akureyri og úr fjórum í þrjá í Reykjanesbæ. Hefði samruninn þannig verið neytendum til tjóns að mati Samkeppniseftirlitsins.
Áður hefur Samkeppniseftirlitið heimilað kaup Samkaupa á eignum 12 verslana Basko. „Í því máli, sem varðaði upphaflega 14 verslanir, gaf Samkeppniseftirlitið til kynna strax á fyrstu stigum máls að því sýndist að samruninn hefði ekki skaðleg áhrif á samkeppni á höfuðborgarsvæðinu, en líkur væru á því að samkeppni myndi skaðast á staðbundnum svæðum, þ.e. einkum á Suðurnesjum og á Akureyri,“ segir í mati Samkeppniseftirlitsins.
Sjá einnig: Samkaup kaupir tólf verslanir Baskó
„Afréðu samrunaaðilar þá að undanskilja verslanir á Akureyri og í Reykjanesbæ upphaflegum samningi. Á þeim grunni var Samkeppniseftirlitinu kleift að taka afstöðu til kaupa Samkaupa á 12 verslunum Basko, sbr. fyrrgreinda ákvörðun. Í framhaldinu tilkynntu samrunaaðilar að nýju kaup Samkaupa á útistandandi tveimur verslunum Basko,“ segir þar ennfremur og bætt við:
„Framangreind kaup Samkaupa á verslunum Basko á höfuðborgarsvæðinu hafa styrkt stöðu Samkaupa sem þriðja stærsta keppinautarins á dagvörumarkaði. Það má hins vegar ekki verða á kostnað neytenda í Reykjanesbæ og á Akureyri. Því var óhjákvæmilegt að ógilda samrunann að því leyti.“
Nánar má fræðast um ógildinguna í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.
Ógilda kaup Samkaupa á tveimur verslunum

Tengdar fréttir

Hagnaður Samkaupa jókst um 30 prósent milli ára
Hagnaður Samkaupa, þriðju stærstu matvörukeðju landsins, jókst um 30 prósent og var 336 milljónir króna árið 2018. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Kaupfélags Suðurnesja, sem á 59 prósenta hlut í matvörukeðjunni.

Samkaup kaupir tólf verslanir Baskó
Samkaup hafa keypt tólf verslanir Baskó á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal verslanir undir merkjum Iceland og valdar verslanir þar sem nú eru reknar 10-11 verslanir.