Spenna og hatursbréf
Í greininni er rifjað upp að ísraelsk stjórnvöld hafi verið beitt þrýstingi vegna komu Hatara til landsins en innanríkisráðuneytið þar í landi hefur ítrekað verið hvatt til að meina Hatara inngöngu í landið. Þá hefur gagnrýni borist úr báðum áttum, þ.e. stuðningsmanna ísraelskra stjórnvalda annars vegar og Palestínumanna hins vegar.„Það er spenna. Það er fíll í herberginu,“ segir Matthías í því samhengi og bætir við að hljómsveitinni hafi borist hatursbréf.
Þátttaka jafngildir pólitískri afstöðu
Þá ítrekar Matthías það sem kom fram í viðtali breska ríkisútvarpsins við Hatara í gær, þ.e. að þeir muni beita sér fyrir því að varpa ljósi á stefnu ísraelskra stjórnvalda – einkum þegar kemur að Palestínu – þrátt fyrir að pólitískur áróður sé bannaður í keppninni.Hatari við BBC: „Fráleitt að halda keppnina í landi þar sem átök og óeining eru ríkjandi“
„Eurovision er auðvitað fallegur hlutur sem er byggður á hugmyndum um frið og einingu og í ár er hún haldin í landi sem er þjakað af átökum og sundrung,“ segir Matthías.
„Það að leyfa orðræðunni um mjúku, friðelskandi poppkeppnina fara fram óáreitta í þessu samhengi er, að okkar mati, ótrúlega pólitískt. Allir sem taka þátt í þessu eru að taka þátt í pólitískri yfirlýsingu, hvort sem þeir eru meðvitaðir um það eða ekki.“
Fáránlegt að taka þátt í keppninni
Þá er einnig drepið á heimsókn Hatara á Vesturbakkann en Matthías lýsir því sem „fáránlegu“ að taka þátt í keppninni. Þar séu allir kurteisir og hugsi aðeins um tónlistina.„Og að vera í þessari sápukúlu daginn eftir að hafa séð aðskilnaðarstefnuna í framkvæmd, klukkutíma bíltúr í burtu, er þversögn sem við viljum vera meðvitaðir um.“
Hataramenn eru að lokum inntir eftir framtíðarplönum og segjast þeir hyggja á útgáfu nýrrar plötu í september. Þá gera þeir einnig ákveðnar kröfur til tónleikastaða framtíðarinnar:
„Spila á tónleikum í löndum þar sem ólöglegt hernám er ekki að eiga sér stað,“ segir Matthías um áætlanir sveitarinnar eftir Eurovision í Tel Aviv.
Hatari stígur á stokk annað kvöld á fyrra undanúrslitakvöldi Eurovision. Sveitin hefur nú æft tvisvar á stóra sviðinu en í kvöld fer fram dómararennsli í Eurovision-höllinni. Felix Bergsson, fararstjóri íslenska Eurovision-hópsins, ræddi næstu daga í keppninni og viðtökurnar hingað til í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun. Viðtalið má hlusta á í spilaranum hér að neðan.