Stærsta bílastæðahús í miðborginni, Traðarkot sem stendur skáhallt gegnt Þjóðleikhúsinu, er á framkvæmdasvæðinu.
Kolbrún Jónatansdóttir, framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs, segir ástandið hafa verið verra á sömu slóðum.
„Það verður reynt að hafa Traðarkot opið eins lengi og hægt er,“ segir Kolbrún. Fólk geti þó þurft að fara flóknari leiðir að húsinu, þ.e. ekki upp Hverfisgötuna heldur nýta sér Klapparstíg eða Smiðjustíg á leiðinni þangað.
Óhjákvæmilega verði að loka húsinu einstaka daga, á meðan unnið er að Hverfisgötu beint fyrir framan bílastæðahúsið. Verktakarnir ætli þó að miða við að sú lokun eins stutt og hægt sé. Einn, tvo, þrjá daga. Eitthvað svoleiðis.

„Þegar er komið sumar fer fólk líka að hjóla einn og einn dag. Það fer kannski bara að hjóla fleiri daga þegar þau vita af þessu.“
Áætlað er að framkvæmdum ljúki í september en um er að ræða samskonar framkvæmdir og verið hafa á efri hluta götunnar.

Skipt verður um jarðveg samkvæmt kennisniðum. Lagnir veitufyrirtækja verða endurnýjaðar að stórum hluta. Verkið felst í að grafa og fylla í götu, gangstéttar og hjólastíg, grafa og fylla vegna fráveitu-, vatnsveitu-, hitaveitu-, rafveitu-, fjarskipta- og götulýsingarlagna, leggja fráveitu-, hitaveitu-, rafveitu-, fjarskipta- og götuljósalagnir, leggja snjóbræðsluslöngur, reisa ljósastólpa, malbika, leggja grásteinskant, leggja hellur og ganga frá gróðursvæðum. Leggja skal snjóbræðslulagnir í gatnamót, gangstéttar og hjólastíga og ganga frá yfirborði með götugögnum.