Innlent

Í vímuakstri með tvo unga syni sína í bílnum

Atli Ísleifsson skrifar
Sýnatökur á lögreglustöð sýndu jákvæðar niðurstöður á neyslu ökumannsins á fíkniefnum og var viðkomandi því handtekinn.
Sýnatökur á lögreglustöð sýndu jákvæðar niðurstöður á neyslu ökumannsins á fíkniefnum og var viðkomandi því handtekinn. Vísir/Vilhelm
Lögregla á Suðurnesjum handtók um helgina mann sem ók undir áhrifum fíkniefna og var með tvo unga syni sína í bílnum. Annar drengjanna var ekki í belti.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að sýnatökur á lögreglustöð hafi sýnt jákvæðar niðurstöður á neyslu ökumannsins á fíkniefnum og var viðkomandi því handtekinn.

„Aðstandendum barnanna svo og barnavernd Reykjavíkur var gert viðvart um málið. Auk þessa hefur lögregla tekið fáeina ökumenn úr umferð vegna gruns um fíkniefnaneyslu á undanförnum dögum.  Þá hafa nær tuttugu ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur.  Skráningarnúmer voru fjarlægð af sex bifreiðum sem voru óskoðaðar eða ótryggðar,“ segir í tilkynningunni.

Stöðvaði kannabisræktun

Þá segir að lögregla í umdæminu hafi í gærmorgun stöðvað kannabisræktun í íbúðahúsnæði. Hafi verið um rúmlega 150 kannabisplöntur að ræða.

„Í húsnæðinu fannst einnig töluvert magn af landa sem verið var að brugga. Húsráðandi viðurkenndi bæði ræktunina og bruggunina og afsalaði sér plöntum, landa svo og búnaði, sem hann hafði notað við framleiðsluna, til eyðingar.

Auk þessa fann lögregla umtalsvert magn af fíkniefnum í húsleit sem farið var í, að fenginni heimild, í öðru, ótengdu máli. Var fíkniefni að finna víðs vegar í íbúðarhúsnæði í umdæminu og var um að ræða meintar e – töflur, kannabisefni og amfetamín. Húsráðandi var handtekinn og færður til skýrslutöku á lögreglustöð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×