Tyrkir hafa unnið þrjá fyrstu leiki sína í riðlinum; 2-0 gegn Albaníu, 4-0 gegn Moldóvu og 2-0 gegn Frökkum. Þeir hafa enn ekki fengið á sig mark og það verður því erfitt verkefni sem bíður íslenska landsliðsins í kvöld.
Erik Hamrén, landsliðsþjálfari Íslands, byrjaði með Hjört Hermansson í hægri bakverðinum gegn Albaníu en Birkir Már Sævarsson, sem hefur átt hægri bakvarðarstöðuna undanfarin ár, var utan hóps.
Hjörtur gerði vel í leiknum og líklegt er að Hjörtur haldi sætinu í bakverðinum við hliðina á Ragnari Sigurðssyni og Kára Árnasyni sem verða í miðverðinum.
Ari Freyr Skúlason var vinstri bakvörður gegn Albaníu en spurning er hvort að Hamrén vilji fá meiri styrk og hæð fyrir leikinn í kvöld. Þá kemur Hörður Björgvin Magnússon inn í liðið.

Fari svo að Jóhann Berg sé ekki leikfær eru líkur á að annar ungu leikmannanna í hópnum, Arnór Sigurðsson eða Albert Guðmundsson, eða Arnór Ingvi Traustason komi inn í liðið og fari á kantinn.
Allir eru þeir afskaplega flinkir leikmenn og geta tekið leikmenn á með hraða sínum og tækni en verði Ísland án Jóhanns Bergs verður það mikill missir enda einn besti leikmaður liðsins.
Birkir Bjarnason byrjaði á miðsvæðinu gegn Albaníu og Rúnar Már Sigurjónsson úti á vinstri kantinum. Emil Hallfreðsson er á varamannabekknum og er líklegur til þess að fylla skarð Birkis verði hann ekki með í kvöld en líklegt má telja að Rúnar haldi sæti sínum eftir fína frammistöðu um helgina.

Jón Daði Böðvarsson var ónotaður varamaður á laugardaginn en Kolbeinn Sigþórsson spilaði í um 30 mínútur. Kolbeinn hefur verið að glíma við erfið meiðsli og ólíklegt að hann geti byrjað leikinn í kvöld. Þó má telja líklegt að hann komi við sögu á einhverjum tímapunkti.
Það verður því annað hvort Jón Daði eða Viðar Örn sem byrja sem fremsti maður í kvöld en Jón Daði hefur fundið sig vel á móti Tyrkjum í síðustu undankeppnum. Hann er afskaplega duglegur framherji sem lætur varnarmenn andstæðingana aldrei í friði.
Þetta kemur allt saman í ljós upp úr kringum 17.30 en leikurinn sjálfur hefst klukkan 18.45. Fylgst verður vel með honum á Vísi og honum gerð góð skil í kvöld.