Íslenski boltinn

Víkingur og Breiðablik mega ekki nota nýju leikmennina sína í næstu umferð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári og Heimir Gunnlaugsson, varaformaður knattspyrnudeildar Víkings, handsala samninginn. Kári spilar ekki fyrsta leik sinn með Víkingsliðinu fyrr en á móti FH 8. júlí.
Kári og Heimir Gunnlaugsson, varaformaður knattspyrnudeildar Víkings, handsala samninginn. Kári spilar ekki fyrsta leik sinn með Víkingsliðinu fyrr en á móti FH 8. júlí. vísir/vilhelm
Félagsskiptagluggi Pepsi Max deildar karla opnar á ný 1. júlí en liðin sem spila seinna þann dag geta samt sem áður ekki notað nýjustu leikmenn sína í leikjum sínum.

Kári Árnason hjá Víkingi og Gísli Eyjólfsson hjá Breiðabliki verða því ekki löglegir með sínum félögum í 11. umferð Pepsi Max-deildarinnar en lið þeirra spila mánudaginn, 1. júlí.

Báðir eru þeir að koma heim úr atvinnumennsku, Kári frá tyrkneska félaginu Genclerbirligi en Gísli frá sænska félaginu Mjallby.

Helmingur 11. umferðarinnar fer fram 1. júlí en hinn helmingurinn en spilaður daginn áður. Það leit því út um tíma eins og helmingur liðanna gæti notað nýju mennina. Haukur Hinriksson, lögfræðingur KSÍ, staðfesti í samtali við Fótbolta.net að svo væri ekki.

Víkingur og Breiðablik geta í fyrsta lagi gengið frá félagsskipunum 1. júlí og verða þessir leikmenn því aldrei löglegir fyrr en í fyrsta lagi daginn eftir.

„Þegar kemur að félagaskiptum leikmanna erlendis frá í gegnum FIFA TMS kerfið, þá eru engar aðgerðir af okkar hálfu opnar fyrr en 1. júlí, þ.e. þegar glugginn opnar. Það þýðir að ekki er hægt að gefa út leikheimild fyrr en í fyrsta lagi 2. júlí en til þess að leikmaður geti fengið leikheimild 2. júlí þá þurfa félagaskiptin að hafa borist okkur erlendis frá 1. júlí. Þetta er í takt við grein 15.3. í reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga," sagði lögfræðingur KSÍ, Haukur Hinriksson í samtali við Fótbolta.net.

Víkingur R. tekur á móti ÍA í Víkinni í 11. umferðinni en Breiðablik fer aftur á móti í Vesturbæinn og spilar við heimamenn í KR í toppslag Pepsi Max deildar karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×