KA er komið niður í tíunda sæti Pepsi Max deildar karla eftir fjórða deildartap sitt í röð á móti HK í Kórnum í gær. Júlí er langt frá því að vera uppáhaldsmánuður Óli Stefáns Flóventssonar þjálfara Akureyrarliðsins.
Óli Stefán er á sínu þriðja tímabili sem þjálfari í efstu deild og uppskeran er aðeins sex stig af 33 mögulegum í júlímánuði. Það gera aðeins 18 prósent stiga í boði.
Það sem meira er að liðin hans hafa tapað níu af ellefu leikjum sínum í júlímánuði og markatalan er 16 mörk í mínus.
Grindavíkurliðið tapaði 7 af 9 leikjum sínum í júlí þessi tvö tímabil sem Óli Stefán stýrði Grindvíkingum í efstu deild. Óli Stefán tók síðan við liði KA fyrir núverandi tímabil.
Að þessu sinni byrjaði taphrinan fyrr en í síðustu tvö tímabil en KA-liðið tapaði einnig tveimur síðustu leikjum sínum í júní. KA hefur tapað þessum fjórum leikjum á móti liðunum í 11. sæti (Víkingur), 7. sæti (Fylkir), 6. sæti (Valur) og 8. sæti (HK) en HK-ingar hoppuðu reyndar upp um þrjú sæti með sigri sínum á KA-mönnum. HK var í fallsæti fyrir leikinn.
KA-menn fengu síðast stig í Pepsi Max deild karla eftir 2-1 sigur á gömlu lærisveinum Óla í Grindavík 15. júní síðastliðinn eða fyrir sléttum mánuði síðan.
KA-menn þurfa aftur á móti á stigum að halda enda er liðið núna aðeins einu stigi frá fallsæti og gæti endað umferðina í fallsæti nái Víkingar stigi á móti Fylki í kvöld.
KA-menn eiga eftir að tvo leiki í júlí og eru þeir báðir á heimavelli. Skagamenn koma í heimsókn um næstu helgi og svo mæta FH-ingar viku síðar. Hvorugt auðveldir andstæðingar enda bæði meðal fimm efstu liða deildarinnar.
Óli Stefán Flóventsson og tapleikirnir í júlí:
2017 með Grindavík - 3 töp í 4 leikjum (Markatala: 3-12)
2018 með Grindavík - 4 töp í 5 leikjum (Markatala: 5-9)
2019 með KA - 2 töp í 2 leikjum (Markatala: 2-5)
Samtals: 9 töp í 11 leikjum (Markatala: 10-26)
Júlí er sannkallaður martraðarmánuður fyrir Óla Stefán
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið


„Hugur minn er bara hjá henni“
Íslenski boltinn



Neymar fór grátandi af velli
Fótbolti

Rekinn út af eftir 36 sekúndur
Handbolti

Segir að öllum hafi verið sama um kvennaliðið í KR
Íslenski boltinn

Van Dijk skrifaði undir nýjan samning við Liverpool
Enski boltinn

Aubameyang syrgir fallinn félaga
Fótbolti
