Lífið

Bretar með aulahroll vegna forsíðu the Sun: „Er mögulegt að land geti dáið úr vandræðalegheitum?“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ritstjórn The Sun ákvað að slá tvær flugur í einu höggi og komu tveimur stærstu fréttum vikunnar fyrir á einni forsíðu með aðstoð myndvinnslu.
Ritstjórn The Sun ákvað að slá tvær flugur í einu höggi og komu tveimur stærstu fréttum vikunnar fyrir á einni forsíðu með aðstoð myndvinnslu. The Sun
Skrautleg forsíða götublaðsins The Sun féll í grýttan jarðveg hjá Bretum ef marka má ofsafengin viðbrögð netverja sem keppast um að ýmist fordæma eða hafa hana að háði og spotti.

Forsíðan hefur farið sem eldur í sinu á samfélagsmiðlum en mörgum Bretum sem hafa tjáð sig finnst hún vera hið mesta vandræðamál, þannig spyr einn netverjinn:

„Er mögulegt að land geti dáið úr vandræðalegheitum?“

Boris Johnson tók formlega við embætti forsætisráðherra Bretlands í fyrradag en í fyrstu ræðu sinni í embætti sór hann þess eið að Bretar færu úr Evrópusambandinu 31. október næstkomandi og „ekkert múður“. Þá boðaði hann einnig stóraukin ríkisútlát, bót og betrun og reyndi að telja kjark í þjóð sem hefur lifað í óvissu frá þjóðaratkvæðagreiðslunni um Brexit árið 2016.

Á forsíðu The Sun má sjá stærðarinnar andlit hins nýja forsætisráðherra á sól líkt. Þykir myndvinnslan minna mjög á barnið í barnaþáttunum Stubbunum (e. Teletubbies).

Ritstjórn The Sun hefur líklegast gripið til útspilsins í þeim tilgangi að tengja tvær stærstu fréttir vikunnar saman, annars vegar hitabylgjuna sem hefur riðið yfir hluta Evrópu og hins vegar skipan Johnsons. Á forsíðunni stendur „Nýr forsætisráðherra lofar gullöld“ og „grillar [Jeremy] Corbyn“.

Einn þeirra sem lýsti yfir óánægju sinni með forsíðuna er Owen Jones sem sagðist raunverulega halda að meira að segja opinbert dagblað einræðisríkis þætti of vandræðalegt að birta slíka forsíðu.

Blaðamaðurinn Dawn Foster skoraði þá á fólk að reyna að fá ekki martröð eftir að hafa litið forsíðuna augum.

Leikarinn og leikstjórinn David Schneider greip til stílvopnsins kaldhæðni og velti því fyrir sér hvort það væri einhver leið til að vita hvers vegna The Sun tengdi svona mjög við stjórnmálamann sem hefði engin prinsipp, engar raunverulegar skoðanir og gerði allt í eigin þágu.


Tengdar fréttir

Boris skipar nýja ríkisstjórn

Nýr forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, tók opinberlega við embætti í dag. Boris sem bar sigur úr býtum í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins í gær hóf umsvifalaust að skipa samflokksmenn sína í hin ýmsu ráðuneyti bresku ríkisstjórnarinnar. BBC greinir frá.

Evrópuleiðtogar hafna hugmyndum Johnson

Boris Johnson segist ætla að fella baktrygginguna svonefndu út úr útgöngusamningi. Það telja fulltrúar Evrópusambandsins óásættanlegt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×