Lífið

Ætlaði að hætta í tónlist þegar hún gaf út vinsælasta lagið sitt

Sylvía Hall skrifar
Lizzo hefur vakið mikla athygli fyrir líflega sviðsframkomu.
Lizzo hefur vakið mikla athygli fyrir líflega sviðsframkomu. Vísir/Getty
Söngkonan og flautuleikarinn Lizzo hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn undanfarið. Hún hefur vakið athygli fyrir líflega sviðsframkomu og er ófeimin við að segja hvað henni finnst. Í viðtali við People segir söngkonan ferilinn þó ekki alltaf hafa verið dans á rósum.

Hún lýsir deginum sem hún gaf út lagið „Truth Hurts“ árið 2017 sem einum versta á ferli sínum. Hún  hafi helst viljað gefast upp og hætta í tónlist alfarið. 

„Dagurinn sem ég gaf út Truth Hurts var líklega einn sá myrkasti sem ég hef upplifað á mínum ferli. Ég man ég hugsaði: „Ef ég hætti í tónlist núna mun enginn taka eftir því. Þetta er besta lag sem ég hef gefið út og öllum er sama“,“ segir Lizzo.

Hún segir samstarfsmenn og ættingja hafa hvatt hana til þess að halda áfram. Myrkrið væri alltaf dekkst rétt fyrir sólarupprás.

Lagið náði miklum vinsældum rúmum tveimur árum síðar þegar það heyrðist í Netflix myndinni „Someone Great“. Eftir það fór lagið á mikið flug og situr nú í 6. sæti Billboard listans vestanhafs. Þá hefur verið staðfest að lagið geti orðið tilnefnt til verðlauna á þessu ári þrátt fyrir að vera tveggja ára gamalt.

„Hver hefði trúað því? Hversu mikil áhrif eitt augnablik í kvikmynd getur haft á feril tónlistarmanns er ótrúlegt. Ég var búin að gera allt annað: Leggja á mig vinnuna, gera góða tónlist, fara í tónleikaferðalög – en svo er það þessir auka galdrar sem enginn veit í raun hverjir eru sem geta raunverulega breytt lífi þínu.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×