Rúmlega sextíu manns eru látnir og hátt í 800.000 manns hafa þurft að flýja heimili sín vegna mikilla flóða í Bangladess. Flóðin ná yfir allt að þriðjung landsins og þau eru þau verstu í tvö ár að sögn yfirvalda þar.
Ákafar monsúnrigningar síðustu tveggja vikna valda flóðunum en alls hafa þau haft áhrif á um þrjár milljónir manna. Yfirvöld hafa áhyggjur af því að þegar sjatnar í flóðunum geti hættulegir smitsjúkdómar sem berast með vatni farið á kreik. Þau róa því öllum árum að því að koma upp vatnshreinsistöðvum á flóðasvæðunum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Áætlað er að bændur hafi tapað landbúnaðarframleiðslu að andvirði meira en fjörutíu milljóna dollara, jafnvirði um 4,9 milljarða íslenskra króna. Rauði krossinn deilir nú út matvælum, vatni og annarri aðstoð til fórnarlamba flóðanna.
Bangladess er eitt láglendasta ríki heims og jafnframt eitt það þéttbýlasta. Þar búa 160 milljónir manna á ósum fljóta sem renna út í Bengalflóða. Flóð og fellibylir valda reglulega usla í landinu sem gæti orðið sérstaklega illa úti þegar yfirborð sjávar hækkar vegna hnattrænnar hlýnunar af völdum manna.
Úrkoman hefur einnig valdið aurskriðum í nágrannaríkinu Nepal sem hrifu með sér fimm hús í gær. Átta manns fórust í Gulmi-héraði í vesturhluta landsins. Fjögurra annarra er saknað og tveir eru slasaðir. Alls hafa því hundrað manns farist og þrjátíu er saknað af völdum flóðanna í Nepal.
Hundruð þúsunda á vergangi vegna flóða í Bangladess

Tengdar fréttir

Flóð hafa eyðilagt fjölda þorpa og þúsundir flýja heimili sín
Flóð í Nepal og Indlandi hafa neytt þúsundir manna til að flýja heimilin sín og tugir hafa týnt lífi sínu nú þegar hið árlega monsún-regn stendur yfir.

Flóð hafa hrakið milljónir frá heimilum sínum í Suður-Asíu
Að minnsta kosti hundrað eru látnir í árlegum monsúnrigningum.