Íslenski boltinn

Þórður Þorsteinn hættur í ÍA

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Þórður Þorsteinn Þórðarson
Þórður Þorsteinn Þórðarson vísir/vilhelm
Þórður Þorsteinn Þórðarson mun ekki leika meira með ÍA í Pepsi Max deild karla. Félagið tilkynnti í dag að Þórður hefði komist að samkomulagi um að rifta samningi sínum.

„Eftir miklar vangaveltur höfum ég og Knattspyrnufélag ÍA ákveðið að nú skilji leiðir. Ég skil sáttur við klúbbinn minn þar sem ég hef alist upp og átt allan minn feril fram til þessa,“ segir Þórður Þorsteinn í tilkynningunni.

„Hvað tekur við er ekki ákveðið. Mig langar að þakka ÍA og öllum sem koma að klúbbnum koma og strákunum í meistaraflokki sérstaklega fyrir frábær ár. Stuðningsmönnum ÍA vil ég svo færa sérstakar þakkir fyrir stuðning og hvatningu öll þessi ár.“

Þórður Þorsteinn er fæddur árið 1995 og hefur spilað 102 meistaraflokksleiki með ÍA. Hann hefur aðeins komið við sögu í fjórum af leikjum ÍA í Pepsi Max deildinni í sumar.

ÍA situr í þriðja sæti eftir 13 umferðir með 22 stig, stigi á eftir Breiðabliki í öðru sætinu og átta stigum á eftir KR á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×