KR-ingar voru ótrúlega nálægt því að vinna níunda deildarleikinn í röð í Pepsi Max deild karla í fótbolta í gærkvöldi en urðu á endanum að sætt sig við 2-2 jafntefli á móti Stjörnunni.
Stjörnumaðurinn Hilmar Árni Halldórsson skoraði jöfnunarmarkið með skalla eftir langt innkast Jóhanns Laxdal á þriðju mínútu í uppbótatíma.
KR lenti undir í leiknum en snéri leiknum við með mörkum á 57. og 80. mínútu leiksins. Það fyrra bjuggu varamenn liðsins til en Björgvin Stefánsson skoraði þá eftir stoðsendingu frá Ægi Jarli Jónassyni.
KR-liðið hefði með sigri í gærkvöldi átt eitt félagsmetið yfir lengsta sigurgöngu í nútíma deildarkeppni í efstu deild. Það mun aftur á móti deila metinu.
KR hafði einnig unnið átta deildarleiki í röð fyrir 23 árum síðar eða undir stjórn Lúkasar Kostic sumarið 1996. KR háði mikið einvígi við Skagamenn um Íslandsmeistaratitilinn það sumar en varð á endanum að sætta sig við silfur eftir 4-1 tap í hreinum úrslitaleik upp á Akranesi í lokaumferðinni.
KR vann átta leiki í röð í fyrri umferðinni sumarið 1996 en áttundi sigurinn í röð kom í toppslag á móti ÍA á KR-vellinum. Ríkharður Daðason skoraði eina mark leiksins.
Guðmundur Benediktsson fór mikinn í þessari sigurgöngu KR í fyrri umferðinni 1996 og var með 7 mörk og 5 stoðsendingar í þessum átta sigurleikjum í röð.
Ríkharður Daðason var einnig með sjö mörk og framherjaparið var því með fjórtán mörk saman í þessum átta leikjum. Út á vinstri vængnum var síðan Einar Þór Daníelsson með sex mörk og fjórar stoðsendingar í þessum átta leikjum. Það var því engin smá ógn í þessum þremur leikmönnum fyrstu mánuði 1996 tímabilsins.
Guðmundur meiddist á hné í þessum áttunda sigurleik KR í röð. Hann missti mikið úr og KR-liðið sá á endanum eftir Íslandsmeistaratitlinum til Skagamanna.
Óskar Örn Hauksson var atkvæðamestur í sigurgöngu KR-liðsins í sumar en í þessum átta leikjum var hann með fjögur mörk og tvær stoðsendingar. TobiasBendixThomsen var með þrjú mörk og tvær stoðsendingar alveg eins og Pálmi Rafn Pálmason.
Lengstu sigurgöngur KR á einu tímabili í deildinni í nútíma fótbolta (1977-2019):
8 - 1996 (Lúkas Kostic þjálfaði liðið)
8 - 2019 (Rúnar Kristinsson)
7 - 1998 (Atli Eðvaldsson)
7 - 1999 (Atli Eðvaldsson)
7 - 2013 (Rúnar Kristinsson)
6 - 2009 (Logi Ólafsson)
6 - 2010 (Rúnar Kristinsson)
Sigurganga KR sumarið 1996
2-1 sigur á Leiftri 27. maí
3-0 sigur á Val 8. júní
5-2 sigur á Breiðabliki 12. júní
2-0 sigur á Fylki 24. júní
4-0 sigur á Grindavík 27. júní
4-0 sigur á ÍBV 7. júlí
4-1 sigur á Stjörnunni 11. júlí
1-0 sigur á ÍA 22. júlí
Endaði: 1-1 jafntefli við Keflavík 25. júlí
Samantekt:
25 mörk skoruð
4 mörk fengin á sig
+21 í markatölu
2 eins marks sigrar
5 stærri sigrar (3 mörk eða meira)
4 heimasigrar - 4 útisigrar
Sigurganga KR sumarið 2019
3-2 sigur á HK 20. maí
1-0 sigur á Víkingi 25. maí
1-0 sigur á KA 2. júní
3-1 sigur á ÍA 15. júní
3-2 sigur á Val 19. júní
2-1 sigur á FH 23. júní
2-0 sigur á Breiðabliki 1. júlí
2-1 sigur á ÍBV 6. júlí
Endaði 2-2 jafntefli við Stjörnuna 21. júlí
Samantekt:
17 mörk skoruð
7 mörk fengin á sig
+10 í markatölu
6 eins marks sigrar
0 stærri sigrar (3 mörk eða meira)
4 heimasigrar -4 útisigrar
