Það er báturinn Særún, sem siglir með ferðamenn frá Stykkishólmi um Breiðafjörðinn allt árið um kring. Á sumrin eru tvær ferðir á dag en ferðin tekur rúmlega tvær klukkustundir.
Á leiðinni fá gestir áhugaverðan fróðleik um eyjar Breiðafjarðar, söguslóðir eru heimsóttar, fuglabjörg skoðuð og sterkustu sjávarfallastraumar við Íslandsstrendur kannaðir. Svæðið iðar af fuglalífi og þá má meðal annars sjá toppskarfa, lunda, ritur, kríur og fýla. Það er mikil upplifun fyrir ferðamenn að fara í þessa ferð.
„Þetta er svona toppurinn hér á nesinu að mínu mati, að koma hér og sigla um eyjarnar, það er svo gott sjólag hérna, mikið skjól, já, bara mjög skemmtilegt“, segir Leifur Harðarson, skipstjóri.

„Það er mjög sjaldan, nánast aldrei sem maður sér einhvern ganga hér frá borði ekki sáttur, það er bara hreinskilið svar“.
Toppurinn á siglingunni þegar skelfiskur er veiddur og snæddur beint úr hafinu ásamt ígulkerahrognum og fleiru góðu sjávarfangi.
Mikil ánægja er hjá farþegum sem fara í siglinguna.
„Já, þetta er mjög skemmtilegt, maður er eins og túristi í eigin landi“, segir Birna Haraldsdóttir, ein af ánægðu farþegunum
Eimskip sér um rekstur Særúnar og Baldurs í Stykkishólmi en í kringum þessi tvö skip vinna á milli 40 og 50 manns.