Drög að þingsályktunartillögu Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga voru sett inn í samráðsgátt stjórnvalda í gær. Drögin byggja á grænbók um málefni sveitarfélaga sem kynnt var síðastliðið vor.
Samráð við sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila fór fram í sumar og fundaði starfshópurinn sem vann grænbókina meðal annars með öllum landshlutasamtökum sveitarfélaga.
Í skýrslu um samráðið segir að mikill samhljómur hafi verið um nauðsyn þess að efla sveitarstjórnarstigið. Það verði meðal annars gert með stækkun sveitarfélaga þótt skiptar skoðanir séu á því hvernig það skuli gert.
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur boðað til aukalandsþings sem fram fer 6. september næstkomandi þar sem tillögur ráðherra verða ræddar.

