Viðskipti innlent

Fyrstu starfsmenn WAB air mættu til vinnu í Hafnarfirði í morgun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flugfélagið WOW air varð gjaldþrota í lok mars. Aðstandendur WAB air hyggjast reisa félagið á grunni WOW en kaupa þó ekkert úr þrotabúi hins fallna flugfélags.
Flugfélagið WOW air varð gjaldþrota í lok mars. Aðstandendur WAB air hyggjast reisa félagið á grunni WOW en kaupa þó ekkert úr þrotabúi hins fallna flugfélags. vísir/vilhelm
WAB air, íslenskt flugfélag sem hópur fjárfesta reynir nú að koma á fót, hóf starfsemi í nýju skrifstofuhúsnæði í Hafnarfirði í dag. Um tíu starfsmenn félagsins mættu til vinnu í morgun en einn stofnenda gerir ráð fyrir töluverðri fjölgun í starfsliðinu næsta mánuðinn.

Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu í dag en hafði þó eftir heimildum sínum að um væri að ræða 600 fermetra skrifstofuhúsnæði í Garðabæ. Sveinn Ingi Steinþórsson, einn stofnenda WAB air og fyrrverandi stjórnarmaður í WOW air, segir í samtali við Vísi að skrifstofurými félagsins sé í Hafnarfirði. Rýmið undir starfsemi WAB air sé um 300 fermetrar.

Sveinn Ingi Steinþórsson, einn stofnenda WAB air.Mynd/Stöð 2
Félagið fékk húsnæðið afhent á föstudag og um tíu starfsmenn mættu til vinnu í Hafnarfirði í morgun, að sögn Sveins. Hann segir að starfsmennirnir vinni nú flestir í flugrekstrarleyfinu en WAB air sótti um slíkt leyfi til Samgöngustofu í byrjun sumars. Sveinn gerir jafnframt ráð fyrir því að starfsmenn félagsins verði orðnir 20-30 talsins innan mánaðar.

Þá segir Sveinn aðspurður að allt gangi samkvæmt áætlun. Ekki sé þó komin dagsetning á jómfrúarflug WAB air en markmiðið hafi verið að fara af stað í haust.

Sveinn sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í júlí að unnið væri að því að ráða starfsfólk og finna húsnæði undir WAB air. Þá sagði hann að búið væri að tryggja fjármögnun flugfélagsins og vel gangi að fá flugvélar.

Hópur fjárfesta, í samfloti við írska fjárfestingasjóðinn Avianta Capital, stendur að stofnun WAB air. Í fjárfestahópnum, auk Sveins, eru Arnar Már Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs WOW air, Bogi Guðmundsson, lögmaður hjá Atlintik Legal Services og Þóroddur Ari Þóroddsson, sem hefur starfað sem ráðgjafi í flugvélaviðskiptum í Lundúnum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×