KR-ingar steinlágu á móti nýliðum HK-inga í 16. umferð Pepsi Max deildar karla í gærkvöldi.
KR var með tíu stiga forystu fyrir leikinn en eftir þennan skell þá eru Blikar nú „aðeins“ sjö stigum á eftir. Það færðist því örlítið meiri spenna í titilbaráttuna í fyrsta sinn í langan tíma.
Þetta þriggja marka tap hjá toppliði er langt frá því að vera daglegt brauð í efstu deild karla.
Það þarf þannig að fara sjö ár aftur í tímann til að finna stærra tap hjá toppliði deildarinnar.
ÍA tapaði 4-0 á móti ÍBV í 7. umferðinni sumarið 2012 en fyrir leikinn voru Skagamenn með eins stigs forskot á toppi deildarinnar.
Daninn Christian Olsen skoraði þrennu fyrir Eyjamenn í þessum leik og ÍA missti toppsætið til FH-inga sem urðu svo Íslandsmeistarar um haustið.
Þrjú önnur topplið hafa tapað með þriggja marka mun á þessum sjö árum sem liðin eru frá skelli toppliðs Skagamanna á heimavelli sínum 15. júní 2012.
Blikar töpuðu 4-1 út í Eyjum í 2. umferðinni 2013, KR tapaði 3-0 á móti Blikum í leik sem var frestað langt fram eftir sumri árið 2013 og Stjarnan tapaði 3-0 á móti FH í 6. umferðinni 2017.
KR-ingar bætast nú í hópinn eftir 4-1 skell á móti HK í Kórnum í gær.
Það er athyglisvert að KR-ingar komust í 3-0 á fyrstu 55 mínútunum í fyrri leik sínum á móti HK sem fram fór 20. maí. Síðan þá hafa HK skoraði sex mörk gegn einu á móti toppliði Pepsi Max deildarinnar.
HK-ingar skoruðu tvö mörk og minnkuðu muninn í 3-2 á síðustu 35 mínútum á KR-vellinum og unnu svo 90 mínúturnar í Kórnum í gær 4-1.
Stærstu töp toppliðanna frá og með árinu 2011:
-4 ÍA á móti ÍBV í 7. umferð 2012 (0-4)
-3 KR á móti HK í 16. umferð 2019 (1-4)
-3 Breiðablik á móti ÍBV í 2. umferð 2013 (1-4)
-3 KR á móti Breiðabliki í 16. umferð 2013, var frestað (0-3)
-3 Stjarnan á móti FH í 6. umferð 2017 (0-3)
