„Þetta var kaflaskiptur leikur en ég er ánægður að fá stigið,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, eftir jafnteflið við Stjörnuna, 2-2, á Hlíðarenda í Pepsi Max-deild karla í kvöld.
Valur byrjaði leikinn vel og komst yfir en svo tók Stjarnan öll völd á vellinum. Gestirnir komust yfir en eftir að mark var dæmt af þeim kom meiri kraftur í heimamenn.
Þeir jöfnuðu og fengu svo vítaspyrnu undir lokin. Haraldur Björnsson varði hins vegar frá Patrick Pedersen og tryggði Stjörnunni stig.
„Við byrjuðum fínt og skoruðum gott mark. En saga okkur í sumar er að um leið við skorum virðumst við hræðast eitthvað og þurfum að lenda undir til að komast aftur í gang,“ sagði Ólafur.
Kristinn Ingi Halldórsson átti góða innkomu í lið Vals og fiskaði m.a. vítaspyrnuna.
„Hann stóð sig vel,“ sagði Ólafur stuttur í spunann.
Eins og áður sagði var mark dæmt af Stjörnunni eftir rúmar 70 mínútur. Helgi Mikael Jónasson dæmdi markið fyrst gilt en sneri þeim dómi svo við eftir að hafa rætt við aðstoðardómarann Bryngeir Valdimarsson.
„Auðvitað sé ég ekki hvort hann er rangstæður. Þú veist það fyrst þú ert að spyrja mig að því,“ sagði Ólafur.
„Mér skilst að dómarinn hafi spurt leikmanninn [Þorstein Má Ragnarsson] hvort hann hafi komið við boltann. Hann sagði örugglega já og þess vegna dæmdi hann rangstöðu. Hann átti auðvitað að segja nei.“
Ólafur: Hann sagði örugglega já og þess vegna dæmdi hann rangstöðu

Tengdar fréttir

Rúnar Páll: Dómgæslan var mjög skrítin frá A til Ö eins og oftast hjá Helga Mikael
Það sauð á þjálfara Stjörnunnar eftir jafnteflið við Val á Hlíðarenda.

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Valur - Stjarnan 2-2 | Dramatískt jafntefli á Hlíðarenda
Liðin skiptu með sér stigunum á Hlíðarenda.