Erlent

Áframhaldandi mótmæli marka lengstu mótmælaöldu í Rússlandi í fleiri ár

Eiður Þór Árnason skrifar
Mótmælin í dag voru mun fámennari en oft áður þar sem fjöldi mótmælenda hefur náð tugþúsundum. Talið er að þessi mótmæli verði þau síðustu fyrir kosningarnar
Mótmælin í dag voru mun fámennari en oft áður þar sem fjöldi mótmælenda hefur náð tugþúsundum. Talið er að þessi mótmæli verði þau síðustu fyrir kosningarnar Vísir/AP
Þúsundir Rússa flykktust um götur Moskvu í dag til þess að krefjast frjálsra kosninga til borgarráðs þann 8. september næstkomandi. Mótmælin voru haldin í trássi við fyrra bann stjórnvalda sem hefur verið framfylgt með handtökum á fjölda aðgerðarsinna í mótmælum síðustu vikna.

Mótmæli hafa nú staðið yfir í nokkrar vikur í höfuðborginni vegna komandi borgaráðskosninga og marka þau lengstu mótmælaöldu í Rússlandi frá árunum 2011 til 2013, þegar mótmælendur mótmæltu meintu kosningasvindli.

Allt að tvö þúsund mótmælendur gengu fylktu liði um götur Moskvu í dag og hrópuðu slagorð á borð við „Rússland mun verða frjálst“ og „Þetta er borgin okkar.“

Fólk hefur safnast saman undanfarnar vikur til að krefjast þess að frambjóðendur stjórnarandstöðunnar fái að bjóða sig fram í komandi borgarráðskosningum. Nú er einnig gerð sú krafa að þeim aðgerðarsinnum sem handteknir voru í fyrri mótmælum verði sleppt úr haldi.

Kosið verður um öll sæti í borgarráði Moskvu þann 8. september til fimm ára. Borgin er nú undir stjórn flokksins Sameinað Rússland, sem er hliðhollur rússneskum stjórnvöldum í Kremlin.

Kjörstjórn í Moskvu hefur neitað að skrá nokkra frambjóðendur stjórnarandstöðunnar með þeim rökstuðningi að þeir hafi ekki náð að safna nægum gildum undirskriftum í tæka tíð. Frambjóðendurnir segjast þó hafa fullnægt skilyrðunum og að undirskriftir sínar séu gildar.


Tengdar fréttir

Nálægt 1.400 handteknir í gær eftir mótmæli í Moskvu

Aðgerðir yfirvalda gegn stjórnarandstæðingum hófust áður en mótmælin hófust í gær. Stjórnarandstöðuleiðtoginn Alexei Navalny var handtekinn síðasta miðvikudag og dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir að boða til mótmælanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×