Nítján ára manni hefur verið sleppt úr gæsluvarðhaldi í sænsku borginni Malmö, en hann var grunaður um að tengjast morðinu á 31 árs konu úti á götu í hverfinu Ribersborg fyrir rúmri viku.
Sænskir fjölmiðar hafa eftir saksóknara að ekki sé að fullu ljóst með hvernig maðurinn tengist morðinu, að grunsemdir hafi ekki styrkst á þeirri viku sem liðin sé, og því verði ekki farið fram á framlengingu á gæsluvarðhaldi.
Málið hefur vakið mikinn óhug en þar gekk maður upp að hinni 31 árs gömlu Karolin Hakim þar sem hún hélt á ungbarni sínu og skaut hana í höfuðið.
Maðurinn, sem nú er frjáls ferða sinna, var handtekinn þar sem hann er skráður eigandi bílsins sem morðinginn notaði til að flýja af vettvangi. Bíllinn fannst nokkru frá morðstaðnum þar sem búið var að kveikja í honum.
Saksóknarinn Anna Palmqvist segir að maðurinn muni áfram koma við sögu í rannsókninni. Enn liggur ekki fyrir um ástæður morðsins. Lögregla rannsakar meðal annars hvort að málið kunni að tengjast einu stærsta ráni í sögu Danmerkur, en barnsfaðir Hakim hlaut á sínum tíma dóm fyrir aðild sína að ráninu.
Morðið í Malmö: Nítján ára manninum sleppt úr gæsluvarðhaldi

Tengdar fréttir

Morðið í Malmö: Barnsfaðir konunnar hafði verið dæmdur fyrir eitt stærsta rán í sögu Danmerkur
Konan var læknir og nýbökuð móðir.

Morðið í Malmö: Karolin var 31 árs læknir og nýbökuð móðir
Fjöldi varð vitni að því þegar hún var skotin síðasta mánudag