„Við vorum bara að lýsa ógeði okkar á heimsókn varaforsetans,“ segir Benjamín. „Við helltum grillvökva yfir fánann og bárum eld að til þess að andmæla því að Ísland sé notað sem vígvöllur fyrir ógeðslegar skoðanir þessa manns.“
Þar vísar hann ekki síst til afstöðu Mike Pence til réttindabaráttu hinsegin fólks, sem varaforsetinn hefur barist ötullega gegn á þingferli sínum. Til að mynda hefur hann mælt fyrir frumvarpi þess efnis að hjónaband verði skilgreint sem samband karls og konu auk þess sem hann hefur mótmælt því að hinsegin fólk geti gegnt herskyldu vestanhafs.
Aðspurður um hvort þeir verði ákærðir fyrir framgöngu sína segist Benjamín telja að þeir gætu átt yfir höfði sér refsingu fyrir að smána erlent þjóðríki. Benjamín neitar ekki fyrir það. „Vissulega vorum við að smána annað þjóðríki og sendiboða þessa hér á landi - en það ætti ekki að vera neitt lagaspursmál,“ segir Benjamín. Þeir hafi aðeins verið að viðra skoðanir sínar. „Guð blessi tjáningarfrelsið.“
Benjamín segir fjarstæðukennt að Íslendingar í „háum embættum“ skuli taka á móti hinum umdeilda varaforseta Bandaríkjanna með jafn mikilli viðhöfn - „í stað þess að spyrna á móti þessu ógeðslega þjóðríki.“ Móttökurnar í Höfða hafi þannig verið „ógeðslegt kjass“ og því það eina í stöðunni að mati Benjamíns að mótmæla með fyrrgreindum hætti.
Hér að neðan má hlýða á stutta samantekt á ferli Mike Pence.