Innlent

Lokuðu Sæbraut til að undirbúa miklar framkvæmdir

Birgir Olgeirsson skrifar
Þessar framkvæmdir munu hafa áhrif á þrenn gatnamót við Sæbraut.
Þessar framkvæmdir munu hafa áhrif á þrenn gatnamót við Sæbraut. Vísir/Vilhelm
Sæbrautinni við Höfða var lokað í austur í morgun vegna undirbúnings fyrir framkvæmdir sem borgin er fer í. Um er að ræða þrjú aðskilin verkefni en á meðal þeirra ætlar borgin í endurbætur á umferðarljósum og gönguleiðum á gatnamótum Sæbrautar við Snorrabraut og Katrínartún.

Fékk borgin framkvæmdaleyfi til að undirbúa þessar framkvæmdir á gatnamótum Sæbrautar og Katrínartúns í morgun. Stóð lokunin yfir í fjórar klukkustundir á meðan starfsmenn komu fyrir þungum steypublokkum sem munu standa á svæðinu á meðan framkvæmdirnar eiga sér stað.

Þessar framkvæmdir munu hafa áhrif á þrenn gatnamót við Sæbraut.

Verður Frakkastígur endurgerður á milli Skúlagötu og Lindargötu og gerð nýrrar tengigötu á milli Skúlagötu og Sæbrautar með tilheyrandi beygjurein og rofi í miðeyju Sæbrautar ásamt uppsetningu nýrra umferðarljósa og gatnalýsingar. Færa þarf strætóbiðstöðvar og gera göngustíga. Leggja þarf snjóbræðslu og lagnir veitustofnana. Þegar ný tengigata hefur verið tekin í notkun verður núverandi tengigata á móts við Skúlagötu 20 og það sem henni tilheyrir fjarlægt og tyrft yfir svæðið.

Þá verða umferðarljós og göngu- og hjólaleiðir á gatnamótum Snorrabrautar og Sæbrautar endurnýjaðar ásamt því að lýsing á gönguleiðum verður endurbætt. Auk þess verður beygjurein og framhjáhlaup til austurs frá Snorrabraut inn á Sæbraut aflagt.

Á gatnamótum Katrínartúns og Sæbrautar verður umferðarljós og gönguleiðir endurnýjaðar og lýsing bætt á gönguleiðum.

Með endurnýjun þessara umferðarljósa verða þau samtengd á þremur gatnamótum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×