Trudeau baðst afsökunar í nótt og gekkst við því að hafa málað sig hörundsdökkan oftar. „Ég axla fulla ábyrgð á þessari ákvörðun minni. Ég hefði ekki átt að gera þetta, hefði átt að vita betur. Þetta var eitthvað sem ég taldi ekki rasískt þá en átta mig nú á því að þetta var fordómafullt. Mér þykir þetta afar leitt,“ sagði hann.
Stjórnarandstaðan í landinu er allt annað en sátt við forsætisráðherrann vegna málsins. Andrew Scheer, leiðtogi Íhaldsflokksins, sagði þetta sýna fram á dómgreindarleysi Trudeaus og óheilindi. Hann væri því óhæfur forsætisráðherra. „Með því að farða sig hörundsdökkan gerir maður gys að öðrum á rasískan hátt. Þetta var alveg jafnfordómafullt árið 2001 og það er árið 2019.“
