Morten Beck Guldsmed skoraði þrennu í 3-1 útisigri á Stjörnunni 31. ágúst síðastliðinn en svo tók við landsleikjahlé og bikarúrslitaleikur. Næsti deildarleikur Danans var því á móti Eyjamönnum í gær 19. september.
Morten Beck skoraði öll þrjú mörkin sín á móti Stjörnunni í seinni hálfleik og tvö af þremur mörkum í gær í fyrri hálfleik. Hann skoraði síðan þriðja og síðasta markið sitt á 52. mínútu sem þýðir að Daninn náði að skora sex mörk á aðeins 80 mínútum í Pepsi Max deildinni.
Síðastur maðurinn á undan Morten Beck Guldsmed til að skora þrennu í tveimur deildarleikjum í röð var KR-ingurinn Andri Sigþórsson sumarið 1997.
Andri, sem er um þessar mundir að selja glæsilegt einbýlishús sitt og Anne Jakobsen í Fossvogsdal, skoraði þá fyrst fimm mörk í 6-2 útisigri á Skallagrími í Borgarnesi 6. ágúst og fylgdi því eftir með þrennu í 6-1 sigri á Val 17. ágúst. Hann var því með átta mörk í þessum tveimur deildarleikjum en Andri skoraði alls 14 mörk í 14 deildarleikjum á leiktíðinni.
Líkt og hjá Morten Beck þá spilaði Andri leik í annarri keppni í millitíðinni. Morten Beck náði þannig ekki að skora í bikarúrslitaleiknum á móti Víkingi um síðustu helgi.
Andri Sigþórsson lék tvo leiki í millitíðinni, fyrst bikarleik á móti ÍBV úti í Eyjum í undanúrslitum og svo fyrri leikinn á móti gríska félaginu OFI kreta í 2. umferð forkeppni UEFA-bikarsins. Andri náði ekki að skora í þeim leikjum en fann aftur skotskóna þegar kom að næsta deildarleik.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar fréttir um afrek Andra frá því fyrir 22 árum síðan.



