Í yfirlýsingu sem Nick sendi frá sér í gær segir að honum hafi ekki verið annarra kosta völ en að fara fram á nálgunarbann „í ljósi hegðunar Aarons sem varð sífellt kvíðvænlegri.“ Með nálgunarbanninu er Aaroni gert að halda sig í a.m.k. þrjátíu metra fjarlægð frá Nick, fjölskyldu hans og heimili þeirra í Las Vegas.
„Eftir að hafa íhugað málið vandlega þykir okkur systur minni, Angel, leitt að tilkynna að við sjáum okkur knúin til að fá nálgunarbann á bróður okkar, Aaron,“ segir í yfirlýsingunni.
„[…] hann elur í brjósti hugmyndir og ásetning um að ráða óléttri eiginkonu minni og ófæddu barni mínu bana.“
Aaron kveðst gáttaður á ásökunum bróður síns. „Ég vil engum illt, síst af öllu fjölskyldu minni,“ sagði hann í færslu sem birtist á Twitter í gær.
I am astounded at the accusations being made against me and I do not wish harm to anyone, especially my family.
— Aaron Carter (@aaroncarter) September 17, 2019
Bræðurnir, sem eru báðir tónlistarmenn, nutu töluverðra vinsælda á tíunda áratugnum og snemma á þessari öld. Þeir komu saman fram í raunveruleikaþættinum House of Carters, þar sem fylgst var með stormasömu heimilislífi bræðranna og þriggja systra þeirra. Nick tilkynnti um það í maí síðastliðnum að hann ætti von á barni með eiginkonu sinni, Lauren Carter.